Njóttu Morgunsins

Haustlegt granóla

Það er svo ótrúlega lítið mál að gera sitt eigið granóla og finnst mér það alltaf miklu betra en það sem maður kaupir út í búð. Ég vakna alltaf hoppandi kát þegar ég á heimagert granóla. Mér finnst gott að gera vel við mig og byrja daginn á því að skella því í skál með heimagerðu kókosjógúrti eða góðum berjaþeytingi. Ég reyni að nota granólað sem algjört spari um helgar en það vill þó stundum fara þannig að það sé borðað á hverjum degi þar til að það klárast.

Haustlegt granóla

  • 200g tröllahafrar
  • 50 g kókosflögur
  • 50 g graskersfræ
  • 50 g trönuber
  • 50 ml kókosolía
  • 1/4 tsk vanilluduft
  • 1/6 tsk gróft salt
  1. Stilltu ofnin á 150°C við blástur.
  2. Settu öll þurrefnin fyrir utan trönuberin saman í skál og blandaðu þeim vel saman.
  3. Bættu síðan kókosolíu, vanilludufti og salti saman við. Hrærðu vel saman með sleif.
  4. Settu blönduna á ofnplötu og dreifðu vel úr henni.
  5. Bakaðu í ofninum þar til að granólað er orðið fallega brúnt.
  6. Bættu trönuberjunum saman við þegar að granólað hefur kólnað.
  7. Það er allt í lagi að geyma granólað við stofuhita.

Ég mæli alltaf með að rista hnetur og fræ í ofni í stutta stund því að það er svo miklu bragðbetra og stökkara. Smakkaðu granólað til, ef þú vilt hafa það sætara getur þú bætt við örlitlu hlynsírópi en mér finnst vanillan gefa nógu sætt bragð.

Þá er bara að finna fallega krukku með loftþéttu loki og koma granólanu fyrir eða jafnvel gefa það einhverjum sem þér þykir vænt um. Ég elska að gefa heimatilbúnar gjafir en mér finnst það ein af betri leiðum til að sýna fólkinu mínu að mér þyki vænt um það. Að fá gjöf sem að einhver hefur eytt tíma í að búa til og hefur lagt mikla ást í er algjörlega ómetanlegt.

Njóttu!

Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply