Eftir að hafa ferðast aðeins um heiminn þá fór ég að meta Ísland miklu meira en áður. Ég fór að sjá landið okkar í allt öðru ljósi og fór að bera allt aðrar tilfinningar til þess. Maður heldur nefnilega svo oft að grasið sé grænna hinum megin, en þar skjátlast manni oft hrapalega. Á ferð minni um heiminn saknaði ég fjallanna, mosans og hraunsins gríðarlega mikið. Ég saknaði þessarar ekta íslensku náttúru og áttaði maður sig á því hvað landið okkar býr yfir virkilega sérstakri og mikilli fegurð. Það er nefnilega alls ekkert sjálfsagt að búa við svona gott aðgengi að fallegri náttúru eins og við gerum. Í mörgum stórborgum út í heimi sér maður t.d. lítið annað en stórar byggingar og mikla mannmergð hvert sem maður lítur. Þar eru gjarnan örfáir almenningsgarðar eina ”náttúran” sem fólk hefur aðgengi að í raunhæfri fjarlægð. Hér á landi þarf maður hinsvegar ekki að fara langt til að vera komin í fallega náttúru og eigum við að vera dugleg að nýta okkur það. Það er ekki að ástæðulausu að hingað kemur mikill fjöldi túrista á ári hverju, landið okkar býr yfir einstaklega fallegri náttúru.
Veldu það sem þú elskar að gera
Það er mér svo ótrúlega mikilvægt að fara reglulega út í fallega náttúru. Það gerir mér ekki bara gott líkamlega heldur einnig andlega. Hér áður fyrr hreyfði ég mig bara til þess eins að komast í einhverja ákveðna líkamsþyngd og til að ná einhverjum útlitslegum árangri. Það hefur orðið mikil áherslubreyting hjá mér hvað þetta varðar. Í dag hreyfi ég mig til þess að halda mér í andlegu og líkamlegu jafnvægi, svo er það bara plús ef að eitthvað breytist útlitslega.
Það er mikilvægt að hreyfa sig reglulega til þess að huga að líkamlegu heilsunni, en það er mikilvægt að gera það á þann hátt sem þér finnst skemmtilegur. Eins og t.d. að fara út í göngutúr og hlusta á góða bók í leiðinni, fara í fjallgöngu í kyrrð og ró, stunda yoga, synda, fara út að hlaupa – bara hvað sem er, svo lengi sem að það er eitthvað sem þú elskar að gera og þér líður vel með. Maður á ekki að líta á hreyfingu sem einhverja refsingu og að það sé eitthvað sem maður þurfi að pína sig til þess að gera.
Stingdu þér í samband um leið og þú tekur þig úr sambandi
Þegar ég fer út og hreyfi mig í fallegri náttúru þá líður mér eins og ég stingi mér bókstaflega í samband. Maður nær sambandi við innsæið sitt og hækkar orkuna sína með því að vera úti í náttúrunni. Þar kúplar maður sig frá öllum streituvöldum, öðlast innri frið og nær betri tengingu við sjálfa/n sig. Við þekkjum það öll að vera á fullu allan daginn, bæði í starfi, tómstundum og heima fyrir. Eins er mikið áreiti frá símum, tölvum og öðrum tækjum. Það er því gott að komast frá öllu slíku áreiti og skilja öll tæki eftir heima eða setja þau þá allavega á flugstillingu ef maður hefur kost á því. Þannig að um leið og þú ert að stinga þér í samband við sjálfa/n þig þá ertu að taka þig úr sambandi við allt óþarfa áreiti.
Taktu stöðuna með sjálf- ri/um þér
Með því að fara út í náttúruna, njóta umhverfisins, hlusta á fuglahljóðin og taka eftir því sem er að gerast í kringum mann er maður að æfa núvitund. Að vera hér núna og ná að kyrra hugann með því að aftengja sig frá öllum þeim neikvæðu hugsunum og áhyggjum sem þjóta svo gjarnan í gegnum kollinn okkar yfir daginn án þess að við tökum jafnvel eftir þeim. Með því að gefa sér tíma úti í náttúrunni nær maður að tengjast sjálfum sér og innsæinu sínu, að hlusta á hvað hjartað er stöðugt að reyna að segja manni og fær tækifæri til að kynnast sjálfum sér betur. Þá getur maður fengið svör við spurningum eins og; Hver er ég? Hvert er ég að fara? Hvernig líður mér? Það er nauðsynlegt að kúpla sig aðeins frá daglega amstrinu og staldra aðeins við með sjálfum sér til að sjá hver staðan er. Þá eru minni líkur á að maður ofkeyri sig í vinnu og álagi og að maður geti notið lífsins til fulls.
Ég skora á þig að gefa þér tíma daglega til að fara út í náttúrunna, það þarf ekki að taka langan tíma og þú þarft ekki að leita langt til að vera komin í náttúrufegurð. Settu þig og heilsu þína í fyrsta sæti, þú munt fá það margfalt borgað til baka í formi heilsu og vellíðunar.
Kærleikskveðjur,
-Anna Guðný
No Comments