Þegar sólin er á lofti og heitt er í veðri langar mig undantekningalaust í ís. Ég hef margoft dottið í þá gryfju að enda inn í íssbúð að kaupa mér ís og svo liðið illa á eftir vegna þess hve mjólkurvörur og unnin sæta fara illa í mig. Lausnin á þessu er að eiga góðan ís í frystinum eða að búa hann til í snatri. En að þessu sinni ætla ég að deila með þér uppskrift að mangó og appelsínusorbet sem er algjör unaður á bragðið. Það er ekkert mál að græja hann en þessi uppskrift er einföld, bragðgóð og fljótleg.
Mangó&Appelsínusorbet Uppskrift fyrir ca. 4-5
- 920 lífrænt mangó (4 stk)
- 400 ml safi úr lífrænum appelsínum (6 stk)
- 1 tsk appelsínubörkur
- 2 msk hlynsíróp
- 1/2 tsk gróft salt
- Afhýddu mangóið, skerðu það niður og kreistu safan úr appelsínunum.
- Skrapaðu smá börk af appelsínunni og passaðu að skrapa eins utarlega og þú getur. Þú vilt ekkert hvítt í börkinn þá verður hann svo beiskur.
- Settu allt í blandara og blandaðu þar til silkimjúkt.
- Settu í ísvél eða í box og inn í frysti.
Þegar ég geri ís þá nota ég ísvélina mína sem kostaði lítið sem ekkert á sínum tíma og hefur bjargað mér svo oft þegar íslöngunin bankar upp á. Ég mæli með því að eiga slíka ef þú ert sólgin í ís eins og ég. En ef þú átt ekki ísvél þá getur þú auðvitað sett ísblönduna í frysti í hentugu íláti. Sniðugt væri t.d. að frysta hann í íspinnaformum sem fást í ikea, það slær alltaf í gegn hjá börnunum.
Njóttu í botn <3
No Comments