Ég var stödd í matvöruverslun um helgina með 4. ára frænku minni. Við vorum að reyna að komast að samkomulagi um hvaða jógúrt skildi kaupa handa henni. Hún benti strax á létt drykkjarjógúrt með jarðaberjabragði frá MS og leit ég strax á innihaldslýsinguna sem var svohljóðandi; Léttmjólk, sykur, jarðaber(5%), undanrennuduft, sterkja, bragðefni, lifandi jógúrtgerlar. Ég get ekki sagt að ég hafi verið neitt hissa að sjá sykurinn þarna í öðru sæti. Ég horfði í hvolpaaugu frænku minnar og sagði að það væri rosalega mikill sykur í jógúrtinu og það væri ekki gott í mallakútinn. ,,Núúú okei, mikill sykur. Ég vil þá bara fá kókómjólk“ þar var einnig sykurinn í öðru sæti og endaði ég á því að kaupa ís handa barninu frekar en jógúrtsull eða kókómjólk sem er með álíka miklum sykri. Það var laugardagur og hún fékk því ís sem laugardagsnammi, ég áleit það miklu betri kost heldur en að gefa henni drykkjarjógúrtið sykraða í morgunmat næsta dag.
Þegar ég var sjálf á þessum aldri fékk ég engjaþykkni, skólajógúrt og allt þetta sykraða jógúrt alla morgna. Ég vildi ekki sjá Cheerios en fékk mér stundum Corn flakes með dass af sykri út á. Cocoa puffs var þó í allra mestu uppáhaldi. Þá vissu foreldrar mínir ekki betur en að þetta væri bara hin hollasta fæða í morgunsárið. En núna vitum við betur, það er alltof mikið af sykri í mjólkurvörum og nánast öllum matvörum yfir höfuð. Ein dós af jógúrti er stútfull af sykri og aukaefnum, þetta er nammi og ekkert annað. Gefur þú barninu þínu nammi í morgunmat?
Það er varla farandi í matvörubúð með börn því það er allsstaðar verið að markaðsetja ýmsu vörur beint til þeirra. Búið er að setja teiknimyndafígúrur á ýmsar matvörur eins og t.d. nammi, kex eða jógúrt. Svo þegar komið er á kassann þá klikkar ekki að það sé eitthvað nammi í þeirra augnhæð, þvílik tilviljun. Elsku börnin eru fórnarlömb markaðsetningarinnar, þau suða svo í foreldrunum sem eru kannski þreytt eftir vinnudaginn og nenna ekki að díla við grát og frekju í búðinni.
Ef ég mætti ráða þá væru reglur um að matvöruframleiðendur mættu bara hafa x mikið % af sykri í hverri vöru. Einnig væri bannað að hafa sælgæti við búðarkassana eða nálægt þeim, það ætti bara að vera í sælgætisdeildinni. Þessar reglur myndu ná lengra og vera innan leikskólans líka, hrein og holl fæða og börnin yrðu alin upp við það að fá sér alltaf grænmeti með matnum. Allt samfélagið þyrfti að taka þátt í þessu og setja standardin hátt fyrir komandi kynslóðir.
Ég viðurkenni það alveg að ég get verið stundum ótrúlega afskiptasöm við fólkið sem er mér næst hvað mataræði varðar. Þetta er samt ekkert annað en væntumþykja, ég vil fólkinu í kringum mig fyrir bestu og ég veit sjálf á eigin skinni hvað hvítur sykur er mikið eitur. Við erum svo miklu betur sett án hvíta sykursins og held ég að hann sé rót margra heilsutengdra kvilla. Það er mín skoðun að mataræði tengist t.d. ADHD, einverfu og ofvirkni. Þar held ég að það sé mjög mikilvægt að borða sem minnst af hvítum sykri. Ég held að mataræði sé yfir höfuð algjört lykilatriði hjá okkur öllum, við getum alltaf minnkað heilsukvilla eða læknað þá alveg með því að borða rétt.
Allir vilja börnunum sínum það besta svo að um leið og þú minnkar hvíta sykurinn eða tekur hann alveg út á heimilinu ertu búin/n að gera börnunum þínum stóran greiða. Ég hvet þig lesandi góður að vera vel vakandi fyrir innihaldslýsingum þegar þú ferð næst út í búð. Vertu skynsamur/söm og taktu ábyrgð á mataræði fjölskyldunnar. Byrjaðu strax að ala barnið þitt upp á hollu mataræði, það er langauðveldast að byrja strax frá fæðingu og það er enginn vandi.
Okkar kynslóð þarf að gera breytingar á matarvenjum fjölskyldunnar. Hættum að versla sykraðar jógúrtvörur og setjum matvöruframleiðendum skýr skilaboð að svona rusli fæðum við börnin okkar ekki á. Nú hugsa eflaust flestir; ,, æjj en það er svo dýrt að kaupa hollan mat handa allri fjölskyldunni, miklu ódýrara að kaupa bara jógúrt, nóg af hvítu brauði, skinku, ost og kokteilsósu’’. Já það er ódýrara akkurat núna meðan að flestir gera það, en um leið og neytendur sína að þeir kaupa mikið af hollri fæðu og minna af rusli þá verður það ódýrara. Markaðurinn annar eftirspurn kúnnans.
Hér eru hugmyndir að fyrstu skrefum fjölskyldunnar í átt að betri lífsstíl:
- Hafðu hafragraut í morgunmat handa barninu ef það fær hann ekki á leikskólanum. Ekki setja sykur út á hann, kanill kemur fyllilega í stað hans.
- Hafðu alltaf grænmeti með kvöldmatnum og hafðu alltaf þá skyldu að barnið eigi að smakka allt.
- Ávextir í millimál yfir daginn ef barnið er svangt.
- Ekki mikið af hvítu brauði, hrökkbrauð er strax skárri kostur.
- Í guðanna bænum útrýmdu öllu gosi af heimilinu, ekki láta mig byrja þar. Þvílíkt og annað eins eitur.
- Farðu ein/n í búðina að versla inn.
- Vertu barninu góð fyrirmynd í matarræði og matarvenjum.
- Eldið kvöldmatinn saman og leyfðu barninu að taka þátt. Gerðu allt sem þú getur frá grunni.
- Bakið hollt brauð.
- Þú getur alltaf virkt börnin með í eldhúsinu og þá eru líka miklu meiri líkur á að það viljji smakka ef það tók sjálft þátt í undirbúningnum.
- Skiptu hvíta sykrinum út fyrir aðra sætu í bakstri eins og t.d. döðlur, kókospálmasykur eða hunang. Sniðugt er að eiga til hollara nammi í frystinum um helgar.
- Ekki ala barnið þitt upp við það að fá sælgæti í verðlaun fyrir eitthvað afrek. Ég fékk t.d. alltaf sleikjó hjá hárgreiðslukonunni eða fór í bakaríið eftir læknisheimsókn. Enn þann dag í dag er þetta fast í hausnum á mér og langar mig alltaf í eitthver sæt verðlaun eftir læknisheimsóknir.
- Ef þú átt barnabörn þá ertu ekki að gera því neinn greiða þegar þú dælir í þau nammi og góðgæti þegar þau koma í heimsókn. Eigðu frekar til uppáhaldsávöxtin, bakaðu gott brauð, eigðu hollara nammi í frystinum eða gerðu eitthvað skemmtilegt með barnabarninu.
Ég er sjálf barnlaus og það þykir kannski skrýtið að ég sé að pæla í mataræði barna. Ég hef unnið á leikskóla og tekið þátt í uppeldi nokkura barna og ég get sagt ykkur það að ég veit alveg hvernig mataræði ég mun ala barnið mitt á í framtíðinni. Ég er ekki að gagnrýna neinn með þessari færslu heldur vil ég virkilega vekja fólk til umhugsunar.
Knús í hús <3
No Comments