Hugsaðu

10 ráð til þess að sleppa úr sykurvítahringnum

Vissir þú að það er sykur í öllu? Við vitum öll að það er sykur í nammi, sætabrauði og gosi. En vissir þú að það er sykur í t.d. brauði, sushi, eplamauki, tómatsósu, mjólkurvörum og langflestum tilbúnum vörum? Matvöruframleiðendur vita nákvæmlega hvernig þetta virkar, við verðum háð vörunni þegar þeir setja sykur í hana og okkur dauðlangar í meira. Þess vegna er mjög mikilvægt að við sem neytendur látum ekki plata okkur svona auðveldlega.

  1. Lestu vel á innihaldslýsingar á öllum þeim vörum sem þú kaupir. Því framarlega sem sykurinn er því meira hlutfall er af honum í vörunni. Ég mæli með því að þú stefnir að því að kaupa ekki neina vöru sem inniheldur sykur. Það gæti verið erfitt fyrst, byrjaðu þá bara rólega og keyptu vörur með sykri aftarlega í röðinni ef þú finnur vöruna ekki sykurlausa í hollustudeildinni. Það er hellings úrval af heilsusamlegri valkostum í matvörubúðum nú til dags og vel hægt að gera skynsamlega valkosti. Vörumerki eins og t.d. Himneskt, Himnesk hollusta og H-berg eru sífellt að auka við sig vöruúrvalið. Smátt og smátt getur þú sniðgengið sykurinn alveg.
  2. Sugarfree – 0 calories – fatfree – glutenfree ofl. Það er auðvelt að gabba okkur með þessum slagorðum á vörunum. Þegar það er búið að merkja vöruna svona þá er oft eitthvað annað miklu verra falið í henni. Ef þú getur ekki borið það fram hvað er í vörunni né hefur aldrei heyrt um það áður áttu sennilega ekki að láta það upp í þig. Þegar það er t.d. farið að merkja vörur glútenlausar (jógúrt, nammi o.þ.h) sem aldrei hafa innihaldið glúten er verið að gabba okkur. Það er engin ávísun á að hún sé hrein og holl fyrir okkur né að hún sé laus við unninn sykur.
  3. Búðu til matarplan fyrirfram fyrir vikuna, planaðu alveg hvern dag fyrir sig hvað þú ætlar að borða út frá því hvað þú ert að fara að gera. Fáðu þér bæði hádegismat og kvöldmat. Þá ertu síður svöng/svangur yfir daginn og freistast ekki í eitthvað gúmmelaði. Maður þarf að hafa fyrir því að borða hollt og hugsa um heilsuna, þetta kemur ekki bara að sjálfu sér. Maður uppsker eins og maður sáir.
  4. Taktu með þér nesti og eldaðu alltaf sjálf/ur. Það er unninn sykur í öllu svo eina leiðin til að kötta hann alveg út er að búa til allt sjálfur frá grunni. Ég elda mikið kvöldið áður svo ég eigi afgang í nesti. Einnig er sniðugt að eiga chiapizzu, súpu eða buff í frystinum til að grípa í ef maður er í tímaþröng. Ég nýti líka helgarnar mjög vel og geri mitt eigið brauð, hrökkbrauð, orkubita og fl. sem er snilld að grípa í milli mála þegar maður á annríkt.
  5. Búðu til þitt eigið nammi úr minna unnum sykri eins og t.d. kókospálmasykri, döðlum eða hunangi og eigðu til í frystinum þegar sykurpúkinn kallar á þig. Betra að stelast í svoleiðis heldur en venjulegt nammi. Það er helling af nammiuppskriftum hér á síðunni. Svona nammi vil ég hafa í hófi annars kemur þetta út á það sama, þýðir ekkert að borða gommu af hollara nammi í staðin fyrir einn bita af nammi með hvítum sykri. Haltu þig við einn nammidag í viku.
  6. Ertu alltaf með nartþörf? Oft er maður bara þyrstur þegar manni fer að langa að narta í eitthvað. Byrjaðu á því að fá þér 2 vatnsglös og farðu að gera eitthvað annað. Farðu út í göngu, taktu til í kringum þig eða hringdu í góðan vin. Oft leiðist manni bara og fer að borða bara af því bara. Ef þig langar í eitthvað á kvöldin þá mæli ég með niðurskornu grænmeti með hummus, söl eða harðfisk.
  7. Borðaðu reglulega. Borðaðu á 2-3 klst fresti þá freistastu síður í einhverja óhollustu. Maður hámar í sig allskyns óþverra þegar maður er ekki búin að borða í 4-6klst. Borðaðu milli mála.
  8. Notaðu pinterest. Það er til endalaust af hugmyndum þarna inná ef maður er hugmyndasnauður hvað maður á að láta ofan í sig. Ef þú ert að þrá eitthverja óhollustu með unnum sykri googlaðu hvort þú getir ekki búið það til sjálf án sykurs. Ísvél er t.d mjög sniðug ef þig langar í ís.
  9. Taktu með þér nesti í veislur eða borðaðu vel fyrir veisluna. Sýndu öllum hvað þú ert hæstánægð/ur með nestið þitt og val þitt að fá þér ekki sykur. Ekki hlusta á neikvæðar öfundsýkisraddir sem segja ,,hva, held þú megir nú fá þér smá’’. Oft er fólk voðalega óöruggt yfir því hvað maður er hollur og skynsamur og reynir að fá mann niður í sukkið með sér.
  10. Ekki leita huggunar í sykurríkan mat né verðlauna þig með honum. Ég á það skilið á aldrei við. Þetta getur orðið að vana og það er mjög slæmt að ala þetta upp í börnunum líka. Nammi í veikindum, á erfiðum tíma, eftir læknisferðir o.fl. á aldrei við því að unnin sykur og óhollusta gerir þér aldrei neitt gott.

image (2)Það eru til margar tegundir sykurs enn hér er ég að tala um unnin sykur, þennan hvíta sem við þekkjum öll. Ég hef verið að nota aðallega kókospálmasykur og stundum hunang þegar ég bý mér til eitthvað sætt vegna þess að það fer ekki illa í mig líkt og hvíti sykurinn. Það þarf einnig miklu minna magn af kókospálmasykri og hunangi til að gera hlutina sæta. Það er mikilvægt að hlusta á líkamann hvað þetta varðar og finna út hvað er best fyrir mann. Draumurinn er þó að neyta bara sykursins sem er í ávöxtum og grænmeti. Allur sykur er okkur skaðlegur og ættum við helst að sleppa honum alveg eða nota hann við sérstök tilefni.  Ekkert nammi, kaka eða ís er orðið hollt þótt það innihaldi t.d. kókospálmasykur, þetta er einfaldlega bara skárri valkostur en hvíti sykurinn.

Falin heiti yfir unninn sykur sem ber að forðast:

Brown sugar, Corn sweetener, Corn syrup, Corn syrup solids, Dextrosel, Fructose, Fruit juice concentrate( ávaxtasafaþykkni), Glucose, High-fructose corn syrup (HFCS), Honey, Incert sugar, Lactose, Maltose, Malt, Malt syrup, Maple syrup, Maple sugar, Molasses, Raw sugar, Sucrose (table sugar), Sweetened carob powder, Turbinado. (Heimild: crazy sexy DIET eftir Kris Carr)

Þetta virðist vera svaka erfitt í fyrstu og mikið verkefni en þetta er svo þess virði, þér mun líða miklu betur og ef þú ert í miklu ójafnvægi með matarræðið þá mæli ég hiklaust með matarplani. Hugarfarið er nr. 1,2 og 3 svo ef þú ert mjög jákvæð/ur fyrir þessu þá kemur þetta sjálfkrafa.

Ég trúi því að ekkert okkar þoli unninn sykur og að hann sé okkur öllum skaðlegur. En við getum verið svo dofin af sykurneyslu að við tökum ekki eftir því hvaða áhrif hann hefur á okkur. Ef þú hefur ekki hingað til tekið eftir neinum slæmum viðbrögðum eftir að hafa borðað unninn sykur hvet ég þig til að sniðganga hann í 3 vikur og prufa síðan að fá þér eitthvað sem inniheldur unninn sykur.  Þegar maður hefur afeitrað sig svona af honum og þegar maður prufar síðan að fá hann sér aftur sér maður hversu mikil áhrif hann hefur á andlega og líkamlega líðan manns. Það er algjörlega magnað að sjá á sínum eigin líkama hversu mikið eitur og fíkniefni unninn sykur er.

Það er engin kvöð að sniðganga unninn sykur heldur er þetta ein af bestu ákvörðunum sem þú getur tekið fyrir þig og þína heilsu. Fyrir mér er hann algjört fíkniefni og með því að sleppa honum erum við að fyrirbyggja helling af lífsstílstengdum sjúkdómum. Það er eins og að hefja nýtt líf að losa sig alveg við hann og ég hef ekki talað við eina manneskju sem sá ekki stórkostlegar breytingar á líðan sinni í kjölfarið.

Gangi þér vel!

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply