Þegar ég komst að því að ég væri með fæðuóþol og þurfti að taka út hvítan sykur kom það mér virkilega á óvart hvað það er sykur í gjörsamlega ÖLLU sem við borðum. Þetta var það sem var erfiðast að taka út á sínum tíma og ég fékk fljótt að sjá hversu mikið eitur og fíkniefni sykur er.
Ég ‘’féll’’ oft í byrjun þegar ég var að reyna að losa mig við hvíta sykurinn og fékk sko aldeilis að kenna á því. Ég varð fárveik og mér leið hræðilega; svitnaði, svimaði, fékk magakrampa, útblásinn magi, brjáluð í skapinu, langt niðri andlega, fékk hausverk og það versta var að mig LANGAÐI Í MEIRI sykur! Þetta er algjört fíkniefni, ég gat ekki fengið mér einn bita af suðusúkkulaði því áður en ég vissi af var ég búin með allt sem innihélt sykur á heimilinu. Svo kom að því að vanlíðanin var orðin það mikil að ég varð að láta sykurinn alveg vera og það voru alls ekki góðir dagar framundan meðan sykurinn var að fara úr líkamanum. Ég gat verið ómöguleg í 5-7 daga á eftir. Þetta gerðist margoft, þó ég vissi afleiðingarnar. Skiptunum fór samt fækkandi því líkaminn refsaði mér alltaf harkalegra fyrir í hvert skipti.
Svæsnasta sykursvindl sem ég hef lent í er þegar ég fór út að borða með fjölskyldunni og ákvað að leyfa mér eftirrétt. Afleiðingarnar urðu hinsvegar allt aðrar en ég hafði átt von á. Ég hafði aldrei lent í öðru eins. Það blossuðu upp útbrot um allan líkama og ég svaf ekki vegna kláða þær þrjár nætur sem voru framundan. Ég vissi alveg um leið að þetta væri sykurinn sem ég hafði leyft mér og þarna var líkaminn að reyna losa sig við sykurinn út um húðina. Eftir þetta er ég mjög hrædd við að borða eitthvað sem inniheldur hvítan sykur.
Þegar ég lít til baka þá átti ég mjög erfitt með að losa mig við sykurinn á þessum tímapunkti í lífi mínu. Ég var mjög langt niðri, kvíðin og flúði vandamálin í sykurinn. Það hjálpaði mér samt ekki neitt, ég sökk bara enn dýpra og leið ennþá verr. Bæði á líkama og sál. Einnig þurfti ég að taka margt út í mataræðinu á sama tíma vegna fæðuóþols og var ég ekki alveg að ráða við það. Ég var mjög hugmyndasnauð hvað ég ætti að borða og stundum missti ég alla trú á sjálfri mér og leitaði huggunar hjá sykrinum. Þegar ég fór síðan að kunna betur á þetta nýja matarræði og fór að vinna meira í sjálfri mér breyttist allt til hins betra. Ég gat borðað hollt vandræðalaust og hætti að langa í óholla og unna fæðu. Ég gat loksins sniðgengið hvíta sykurinn alveg. Líkamleg og andleg líðan mín gjörbreyttist í kjölfarið og mér leið stórkostlega.
Ég er alveg handviss um að sykur veldur ýmsum heilsufarsvandamálum og að flest okkar borði alltof mikið af honum. Sem er kannski ekki skrýtið þar sem að það er búið að troða honum í bókstaflega allt sem við borðum. Mín reynsla er sú að hann er ávanabindandi og maður verður háður honum. Það gera örugglega margir eins og ég gerði, flýja vandamálin í sykurinn án þess að gera sér grein fyrir því og eru orðnir háðir honum.
Mín reynsla er sú að best sé að forðast hvíta sykurinn eins og heitan eldinn og helst sleppa honum alveg. Auðvitað getur maður ekki bara vaknað á morgunn og ákveðið að borða sykur aldrei aftur. Bara það að vera meðvitaður um hversu mikil áhrif unnin sykur hefur á líkamlegu- og andlegan líðan manns er skref í rétta átt. Ég hvet þig því að prufa að sniðganga hvíta sykurinn og annan unninn sykur í eitthvern tíma og sjá svo hvað gerist þegar þú prufar að fá þér hann aftur. Þá áttar maður sig fyrst á áhrifunum sem hann hefur á mann. Með því að hlusta alltaf á líkamann kemst maður alltaf að því hvaða fæðu maður á að sniðganga og hverja ekki.
Ég er algjör sælkeri og gæti aldrei lifað alveg án sætu og það er sem betur fer til betri kostir á markaðnum heldur en hvíti sykurinn. Það er t.d. hægt að nota kókospálmasykur, hunang, hlynsíróp, döðlur og margt fleira. Sykur er þó alltaf sykur og líkaminn vinnur eins úr honum, við þurfum þó ekki jafn mikið af t.d. kókospálmasykri eða hunangi eins og við myndum þurfa af hvítum sykri. Hvíti sykurinn er miklu meira unninn og fíngerðari. Það þýðir samt alls ekki að búa sér til “hollustunammi“ og fá sér á hverjum degi (þó það væri nú ljúft). Best er að halda öllum sykri í lágmarki og er fínt að miða við að hafa einn nammidag í viku þar sem þú getur leyft þér eitthvað sætt. Það verður erfitt fyrst að koma sér á það í byrjun en það verður svo gott þegar maður er kominn þangað.
Í næsta bloggi mun ég gefa þér ráð hvernig maður getur losað sig alveg við hvíta sykurinn úr lífi sínu.
-Anna Guðný <3
No Comments