Víetnam kom virkilega á óvart. Það var ekkert smá fallegt þarna og hefði ég viljað vera miklu lengur. Ég er harðákveðin að fara þarna aftur einn daginn.
Við vorum hálf ringluð þegar við komum til Víetnam og sáum enga tuk-tuka. Við þurftum að fara að taka leigubíla og komust þeir samt varla áfram í stórborg eins og Ho Chi minh city því það var allt morandi í vespum. Allt önnur umferð en maður er vanur og byði ég ekki í það að taka einn dag á vespu í HCMC.
Það var mjög aðdáunarvert hversu duglegar konurnar voru í Víetnam. Þeim tekst alltaf að finna leið til að þéna inn peninga fyrir heimilið. Þær selja ávexti, eru með götuveitingastað, eru með búðir, týna flöskur, róa með túrista, og meira að segja vakna eldsnemma á morgnanna til að kaupa ódýra afurð í litlum bæjum til að selja í stærri bæjum.
Karlpeningurinn er ekki áberandi í störfum og byrja þeir daginn á því að drekka kaffi, reykja og spila saman. Sumir halda svo út í vinnu sem tengist sjávarlífinu eða einhverju öðru á meðan aðrir halda áfram að spila.
Það eru hrísgrjónaakrar útum allt í víetnam enda þeirar helsta atvinnugrein ásamt ferðamannaiðnaðinum. Mér fannst víetnömsku réttirnir vera mjög líkir þeim thailensku og var mikið um hrísgrjón á matseðlunum. Ég verð nú þó að viðurkenna það að ég smakkaði ekki mikið af víetnamska matnum. Mataræðið í víetnam gekk ágætlega í heildina. Það bjargaði mér alveg að fá mér hafragraut á morgnanna og gerði ég þar allsstaðar sem við gistum. Meira að segja í siglingu úti á vallarhafi mætti ég með krukkuna og bað um heitt vatn út á hafrana mína.
Við fórum til Halong Bay í 3 daga siglingu sem var mjög gaman og vorum við mjög heppin með veðrið. Við fórum á kayak, skoðuðum helli, fórum í fjallgöngu og leigðum okkur vespu til að skoða eina eyjuna.
Við vorum í 8 daga í litlum krúttlegum bæ sem heitir Hoi An. Planið var að vera þar í 3-4 daga en við gátum ekki hugsað okkur að fara því okkur leið svo ótrúlega vel þar. Andrúmsloftið var svo gott og var manni tekið með bros á vör hvert sem maður fór. Við vorum með hjól og hjóluðum um allar trissur sem var ótrúlega gaman til að sjá menninguna og náttúruna.
Við fundum hollan stað í Hoi An sem heitir Cocobox. Þar voru í boði safar, þeytingar, salöt og ýmislegt fleira. Það þarf varla að taka það fram að ég fór þangað á hverjum degi fyrir utan einn dag.
Við fundum einn ótrúlega góðan veitingastað í húsasundi í Hoi An sem heitir Nu eatery, enginn hollustustaður kannski en ótrúlega góður. Það voru fáir réttir á matseðlinum svo maður hafði það á tilfinningunni að það væri gott hráefni í hverjum rétti fyrir sig.
Fólkið í Víetnam tók á móti manni með bros á vör og mikilli hlýju. Sem dæmi vorum við að rölta um fiskiþorp þar sem mikið var að gerast þá bauð þetta indæla fólk okkur sæti og eitt besta kaffi sem við höfum smakkað. Þau töluðu ekki ensku og við ekki Víetnömsku svo bros og táknmál varð að duga og virkaði vel.
Frá Víetnam lá leiðin til Balí sem ég segi ykkur frá í næsta bloggi.
Lifið heil!
Anna Guðný
No Comments