Njóttu Góðgætis

Vegan&glútenlaus gulrótarkaka

7. mars, 2019

Þar sem að ég á afmæli í mánuðinum þá langaði mig að gera einhverja alvöru lúxusköku til að deila með ykkur og niðurstaðan varð þessi ómótstæðilega 3-laga gulrótarkaka með karamellurjómaostakremi. Ég er í skýjunum með útkomuna en kakan er laus við unninn sykur, glúten og er að sjálfsögðu vegan. Kakan er ekkert smá bragðgóð og kremið – jiminn hvað það býður upp á marga möguleika, hlakka svo til að leika mér meira með það. En rjómaosturinn frá koko er ný vara frá heilsu sem að fæst m.a. í nettó og er hann meginuppistaðan í kreminu. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir vöruúrvalið á veganvörum sem við búum við hér á landi, það er magnað að á þessari litlu eyju sé þetta breiða og fallega vöruúrval.

Kakan er einföld í framkvæmd en mikilvægt er að lesa aðferðarlýsinguna til að hún heppnist. Eftirfarandi uppskrift er mjög stór, eða fyrir þrjá botna. Það er um að gera að minnka uppskriftina við minni tilefni.

Gulrótarkaka

3 botnar, formin eru 21 cm í þvermál.

 • 500 g gulrætur
 • 300 g haframjöl
 • 300 g möndlumjöl
 • 100 g kókospálmasykur
 • 4 msk chia fræ + 8 msk vatn
 • 150 g eplamauk
 • 150 g kókosjógúrt
 • 9 msk kókosolía
 • 300 g döðlur
 • 3 tsk vínsteinslyftiduft
 • 3 tsk matarsódi
 • 3 tsk eplaedik
 • 2-3 msk kanill
 • 2 tsk gróft salt
 1. Byrjaðu á því að rífa niður gulræturnar og settu þær í skál með 1/2 tsk salti. Nuddaðu þær aðeins og settu þær svo til hliðar. Þetta skref er til þess að sem mestur vökvinn fari úr gulrótunum svo kakan verði ekki of blaut.
 2. Næst malar þú niður haframjöl í kaffikvörn eða matvinnsluvél. Settu svo malaða haframjölið og hin þurrefnin saman í matvinnsluvél.
 3. Malaðu chiafræ í kaffikvörn og hrærðu vatninu saman við þau. Bættu chiagelinu út í matvinnsluvélina ásamt hinum blautefnunum.
 4. Settu svo döðlurnar út í og láttu matvinnsluvélina vinna þar til að myndast hefur kekkjalaust deig. Settu deigið svo í stóra skál.
 5. Taktu nú rifnu gulræturnar og kreistu vökvan úr þeim. Taktu lítinn skammt í einu í hendina og kreistu sem mestan vökva úr þeim áður en þú hrærir þeim varlega saman við deigið með sleif. Settu svo deigið í form og bakaðu í 40 mín við 180°C.

Karamellukrem

 • 2 x dollur af koko rjómaosti (vegan)
 • 230 g kókosfeiti
  (þykki parturinn af kókosmjólk, gott að láta hana standa í ísskáp yfir nótt eða í frysti í 2-3 klst)
 • 1 msk hlynsíróp
 • 90 g kókospálmasykur, malaður
 • 1 tsk vanilluduft
 • 1/2 tsk salt
 1. Byrjaðu á því að mala kókospálmasykurinn í kaffikvörn
 2. Bættu síðan öllum innihaldsefnunum saman í blandara/matvinnsluvél þar til kekkjalaust.
 3. Kældu kremið í ísskáp í 2 klst.
 4. Settu kremið á kökuna þegar að botnarnir hafa kólnað alveg.

Eins og þú sérð í þessari uppskrift að þá nota ég kaffikvörn til að mala margt niður og ég mæli eindregið með að fjárfesta í kaffikvörn, ég á þessa hér sem hefur reynst mér mjög vel. Þetta er ekki auglýsing.

               Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply