Það er rosalega mikil útlitsdýrkun í samfélaginu í dag og fer hún sívaxandi. Samfélagsmiðlar ýta mikið undir þetta þar sem við birtum gjarnan lífið í algjörri glansmynd. Ósjálfrátt fer maður að bera sig saman við aðra og í leiðinni að rakka sjálfan sig niður.
Fínpússaðar stórstjörnur eru oft fyrirmyndir unglinga og vilja þau vera jafn þvengmjó og glæsileg eins og stjörnurnar birtast í tónlistarmyndböndum, kvikmyndum og fjölmiðlum. Það er fljótt að komast í fréttirnar ef það hefur náðst mynd af stórstjörnu sem er ómáluð, með appelsínuhúð eða hefur bætt á sig nokkrum kílóum. Það er þá álitið sem svakalegt hneyksli. Þá hlakkar sko í okkur ”venjulega” fólkinu að það sé ekki til neinn sem er fullkominn.
Ég hugsa mikið til yngstu kynslóðarinnar sem er á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram. Ég held að það sé mjög auðvelt fyrir þau að meta sjálfa sig út frá fjölda þeirra sem líkar við myndir þeirra sem þau setja af sér þarna inn á. Þau eru líka fljót að læra það að því meira hold sem þau sýna því fleirum líkar við myndina. Það eru 250 manns sem líkar við myndina hjá vinsælustu stelpunni meðan það eru kannski 30 sem líkar við mynd hjá annari stelpu í bekknum. Hvernig líður henni þá? Ég held að Facebook geti ýtt undir einelti og niðurbrot unglinga. Sem getur síðan haft þær afleiðingar að þau verði kvíðin, þunglynd eða jafnvel leiti huggunnar í ólögleg efni í framtíðinni.
Þetta á reyndar ekki bara við um unglinga. Ég hef sjálf alveg verið stressuð ef það eru ekki nógu margir búnir að líka við eitthvað sem ég hef sett á Facebook, þá finnst mér ég bara vera að hafa mig að fífli. Sem er mesta vitleysa í heimi! Við búum þetta allt til í höfðinu á okkur.
Afhverju gerum við okkur þetta? Afhverju erum við ekki ánægð í eigin skinni? Hvaða máli skiptir hvað öðrum finnst? Við erum annaðhvort of feit, of horuð, of lágvaxin eða of hávaxin. Við erum alltaf að finna eitthvað að okkur og/eða öðrum. Öll eigum við að vera í sama mynstrinu. Er það raunhæft? Nei.
Við þurfum að læra að elska okkur nákvæmlega eins og við erum. Þú átt ekki að láta sjálfstraust þitt velta á því hvað öðrum finnst. Þú ert nákvæmlega eins og þú átt að vera. Við erum öll einstök og það er fáranlegt að ætlast til þess að við séum öll í sömu fatastærðinni og í sömu hlutföllunum. Ekki misskilja mig, ég er alls ekki að segja að við eigum öll að leggjast upp í sófa og hætta að hugsa um heilsuna, af og frá. Hreyfing er mjög mikilvæg bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. En þegar við erum farin að hreyfa okkur af því að okkur finnst við ekki nógu flott og við verðum ekki ánægð fyrr en x kg eru fokin og slétti maginn er kominn þá erum við á villigötum. Ég sjálf fer í ræktina því mér líður svo ótrúlega vel á eftir og verð svo miklu léttari andlega og ég fæ síður kvíða eða þunglyndisköst. Allt annað sem fylgir er svo algjör bónus.
Við þurfum að vera miklu duglegri að hrósa okkur sjálfum og það oft á dag. Í þerapíunni ,,Lærðu að elska sjálfa/n þig” hjá Ósk þá var fyrsta verkefnið mitt að skrifa niður 3 mismunandi jákvæð lýsingarorð um sjálfa mig á hverjum degi í 3 vikur. Ég geti ekki lýst því hvernig mér leið á þessum þremur vikum, ég brosti hringinn og sveif um á bleiku skýji. Svo magnað var það. Ég skora á þig að prufa!
Bestu kveðjur
-Anna Guðný <3
2 Comments
Þörf umræða systir!
Voðalega ert þú nú vel heppnuð stelpa Anna Guðný!