Thailand var fjórða landið í fjögurra mánaða heimsreisu okkar. Við lentum í Phuket og fikruðum okkur þaðan á eyjurnar og síðan upp eftir landinu.
Þetta var virkilega notalegt land og auðvelt að ferðast á milli staða. Heimamenn eru með ferðaskrifstofur á hverju horni svo það var mjög auðvelt að rölta á milli og finna besta verðið. Við ferðuðumst mikið með minivan sem er ekki sérlega skemmtilegur ferðamáti en maður lætur sig hafa það því hann er svo ódýr.
Thailenski maturinn fór ágætlega í mig en fékk maður fljótt leið á honum. Matseðlarnir voru á lengd við ævisögu en samt réttirnir allir svipaðir. Ég fékk mér oftast kjúkling með hrísgrjónum eða núðlum. Það bjargaði mér alveg að finna smoothie á flestum stöðum til að fá mér um miðjan daginn eða til að svala sætuþörfinni. Í morgunmat fékk ég mér hafragraut þegar hann var í boði, annars ommelettu og ávexti. Í seinnhluta thailandsferðar kom kærasti minn með frábæra hugmynd. Hún var sú að kaupa haframjöl og gera mér hafragraut á morgnanna. Það eru oftast hraðsuðukatlar á gistiheimilunum og ég var nú þegar að ferðast með krukku, skeið, chia fræ og kanil. Þetta er búið að bjarga mér alveg!
Við sóttum stundum í evrópska staði þegar þá var að finna og freistaðist ég stundum í pizzu og ís sem hafði sínar afleiðingar. Viðbrögðin eru sem betur fer langt frá því að vera eins slæm og heima á Íslandi. Sem sýnir bara og sannar að því minna stress, streita og kvíði því meira þoli ég í mat. Ég þrái þó alltaf ferskan og hreinan mat því líkaminn minn veit hvað það gerir honum gott, manni líður svo miklu betur bæði andlega og líkamlega. Hann er því miður ekki alltaf í boði og get ég ekki beðið eftir að komast í eldhúsið heima. Þangað til geri ég mitt besta.
Ég fann tvo hráfæðisstaði í Thailandi, Atsumi Raw Cafe í Phuket og Rasayana Retreat í Bangkok. Það bjargar deginum hjá mér þegar ég kemst í svona holla staði og svíf ég gjörsamlega um á bleiku skýi.
Thailand fór annars mjög vel með okkur og stóð upp úr að kíkja á fílaheimili þar sem mjög gott sjálfboðastarf fer fram. Við fengum að gefa þeim að borða, baða þá, fara með þá í göngutúr og að fara berbakt á bak.
Kær kveðja,
-Anna Guðný
No Comments