Andaðu

Svona galdrar þú þig úr janúarvonleysinu

Öll höfum við orðið vör við það að nýtt ár sé gengið í garð og margir gætu fundið fyrir pressu um að nú eigi maður að skrifa niður markmiðin sín og byrja strax að vinna að þeim á fullu. Það er gott og blessað fyrir þá sem að tengja við það og finnst það virka fyrir sig. En mig langar að koma inn á eitt áður en þú ferð og skrifar niður markmiðin þín.

Mig langar að minna þig aðeins á að anda og finna fyrir því hvernig þér líður.

Desember er oft mánuður mikillar samveru við annað fólk og ýmislegt sem fólk er að gera & græja. Það má alveg hefja nýtt ár á því að slaka á og að gefa sér rými til að lenda. Taka einn dag í einu og taka á móti þér á þeim stað sem þú ert á núna. Kannski er þitt stærsta afrek að fara í bað, rólegan göngutúr eða þess vegna að setjast bara út í fjöru að hlusta á öldurnar. Þetta er ennþá mjög dimmur árstími, við fáum ekki margar klst. af birtu og stundum líða margir dagar á milli þess sem við fáum þá fallegu gjöf að sólin láti sjá sig.

Á þessum dimma tíma er gott að fara inn á við í rólegheitunum og hugsa fyrir sig hvernig þú virkilega vilt hafa líf þitt. Að draga fram stílabók og punkta hjá þér það sem þú ert að hugsa & finna. Skoða af hverju og hvað er mikilvægt fyrir þér. Hver eru þín helstu gildi og hvernig þú getur lifað meira í takt við þau. Ert þú að forgangsraða rétt út frá þínum gildum?

Svona set ég mér markmið

Áður en við förum í markmiðin þá langar mig að minna þig á að þú ert handritshöfundurinn í þínu lífi. Þú getur skapað hvaða líf sem þú vilt fyrir þig. Allt er mögulegt. Þú komst inn í þennan heim til þess að upplifa töfra þess að vera lifANDI.

Hvernig væri líf þitt ef að þú myndir fara úr veginum fyrir þér?
Ef að þú værir fullkomlega dansandi um með engar áhyggjur, kvíða, spennu eða vonleysi í líkamanum? Hvað myndi lífið snúast um og hvernig væru dagarnir þínir?

Mér finnst mjög gott að setja mér markmið fyrir hvern mánuð, viku og dag fyrir sig en einnig fyrir allt árið. En þessi markmið eru þarna til að hvetja mig áfram, eitthvað til að stefna að og hjálpa mér að halda fókus. Ef ég næ ekki þessum markmiðum þá er það allt í lagi og ég dreg mig ekki niður fyrir það. Maður verður alltaf að hafa rými til þess að lífið geti verið allskonar og maður getur ekki haft fullkomlega stjórn á því hvað kemur upp á.

Ég skrifa einn lista yfir það sem ég veit að er gerlegt fyrir mig að ná að afreka og vil gera. Svo skrifa ég annan lista yfir það sem ég vil galdra inn í líf mitt þó það sé kannski pínu óraunhæft. Við getum nefnilega galdrað hvað sem er í lífið okkar ef við virkilega stillum okkur inn á það. Erum á sömu tíðni og það sem við erum að biðja um. Það að skrifa niður það sem við viljum, sjáum það fyrir okkur og segjum það upphátt er allt mikilvægt í galdraferlinu. Og auðvitað að trúa, því meira sem þú trúir því auðveldara er það fyrir þig að laða það til þín.

Hvað þýðir að vera á sömu tíðni og það sem maður er að biðja um?

Allt í heiminum hefur ákveðna orku og því ákveðna tíðni. Alveg eins og útvarpsstöðvarnar hafa ákveðnar rásir, þá er allt sem við gerum með ákveðna tíðni. Því að þú sendir frá þér orkutíðni út frá hjartasviðinu þínu. Hvaða tilfinningum & hugsunum þú dvelur í hefur svo að segja um hvaða tíðni þú sendir frá þér. Þegar að þú ert í sorg eða vonleysi þá sendir þú frá þér frekar lága tíðni og þá ert þú móttækilegri fyrir öllu því sem er á þessari sömu tíðni. Þú getur ekki laðað neitt til þín sem að er ekki í sömu tíðni og þú ert í. Þannig að ef að þig langar að laða til þín eitthvað sem er í hárri tíðni, eins og t.d. að láta ákveðin draum rætast sem væri mikill sigur fyrir þig, meiri vellíðan, hamingjuríkari stundir og meira af nærandi tengingum í líf þitt; byrjaðu þá að vera í sömu orkutíðni og nákvæmlega það.

Ég hvet þig því til að svara eftirfarandi spurningum skriflega:

  • Hvernig líður þér?
  • Hvernig líður þér virkilega?
  • Hvenær í lífinu þínu hefur þér liðið eins og þú gætir sprungið af hamingju?
  • Hvað getur þú gert til að láta þér líða aftur þannig? Hvað vantar upp á?
  • Ef þú ættir bara að taka 1 heilsubætandi skref til að innleiða í þinn lífsstíl, hvað væri það?
  • Hvernig getur þú komið því inn í þína rútínu? Hvaða daga og kl. hvað?
  • Hvernig lítur líf þitt út þegar að þú setur þetta skref inn í þinn lífsstíl?

Það er algengt að fólk hefji nýja árið á miklum lífsstílsbreytingum sem falla svo um sjálf sig. Þú þarft ekki að hreinsa mataræðið, bæta við hreyfingu, ná bættari svefni, temja þér minni símanotkun og heimsækja ömmu þína oftar allt á sama deginum. Veldu eitthvað eitt og innleiddu það á þínum hraða. Sýndu þér þolinmæði, sjálfsmýkt og kærleika. Eitt skref í einu. Einn dagur í einu. Vertu þín helsta klappstýra og taktu utan um þig með sjálfsást & kærleik.

Ef þig vantar hjálp við að breyta lífsstílnum á geranlegan hátt þá minni ég að sjálfsögðu á netnámskeiðið mitt Endurnærðu þig, en þar styð ég við þig í 6 mánuði í því að bæta lífsstílinn þinn á heildrænan og mildan hátt. Meira um það hér.

Ljósmyndari: Ingibjörg Torfadóttir

Að lokum…

Þó að það sé komið nýtt ár þá ert þú samt ennþá í sama líkamanum og sama manneskjan. Það getur verið gott að líta á hvað það var sem þig langaði að afreka í fyrra en náðir ekki. Hvað olli því? Er eitthvað sem þú getur gert öðruvísi í ár eða er eitthvað sem stendur í veginum? Er jafnvel eitthvað óuppgert innra með þér sem þú ert ekki að hleypa út eða vinna úr. Það magnaða við þennan dimma árstíma er að við erum meira ein með sjálfum okkur og gefur það okkur það dýrmæta tækifæri að tengjast tilfinningum okkar. Að hleypa þeim út, sama hvernig þær eru eða hvernig þær vilja komast út. Gott er að skrifa reglulega niður hvernig manni líður eða leita sér aðstoðar til að vinna úr gömlum áföllum, takmarkandi mynstrum og fá ráð til að stíga fastar í styrkinn sinn.

Þú getur farið eldsnemma á morgnana að hreyfa þig, tekið öll bætiefnin og borðað hreina fæðu – en ef þú forðast að horfast í augu við það sem er að gerast innra með þér að þá munt þú ekki uppskera þá lífsgleði og hamingju sem að þú komst hingað til að upplifa. Andlega heilsan er grunnurinn að öllu í þínu lífi og því það mikilvægasta sem þú getur gert fyrir þig að rækta samband þitt við þig. Að taka ábyrgð á eigin líðan og setja það í forgang að hlúa að andlegu heilsunni þinni það smitar út í allt sem þú gerir á mjög jákvæðan og árangursríkan hátt.

Ef þú vilt minn stuðning, hvatningu og aðstoð við að gera jákvæðar breytingar fyrir andlegu heilsuna – þá er ég með í boði netnámskeiðið Ræktaðu samband þitt við þig og einstaklingstíma í þerapíuna Lærðu að elska þig. Sendu á mig línu á anna@heilsaogvellidan.com til að bóka tíma eða fá nánari upplýsingar.

Ást frá mér til þín,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply