Það var mögnuð upplifun að koma til Sri Lanka og væri ég alveg til í að fara þangað aftur. Fegurðin í þessu landi er ómótstæðileg, bæði hvað náttúruna og fólkið sjálft varðar. Þetta land er mjög líkt eins og ég hafði ýmindað mér Afríku. Það var mikið áreiti frá þeim sem vinna í ferðamannaiðnaðinum og þá aðallega á túristastöðunum. Þeir heimamenn sem voru ekki að tæta í sig ferðamenn voru ótrúlega ljúft og brosmilt fólk. Það var gaman að brosa til þeirra og fá fallegt og einlægt bros til baka.
Það var pínu sjokk að koma til Sri Lanka frá Dubai þar sem það er mikill munur á milli í bæði menningu og náttúru. Sri Lanka er hálfgert frumbyggjaland þar sem margir búa í strákofum og veiða sér til matar. Fólkið þarna er mjög nægjusamt því það var alltaf brosandi og hlægjandi þótt það gengi um á táslunum og virtist ekki eiga mikið milli handanna. Börnin voru ótrúlega falleg og mikil krútt. Þeim fannst mjög gaman að brosa til okkar og spreyta sig á enskunni og prufa að segja ,,hi, how are you?”.
Lestarkerfið gengur mjög hægt og fer lestin ekki hraðar en 50 km/s. Margir notast við ökutæki á þremur hjólum sem kallast tuk-tuk. Við vorum með bílstjóra í 4 daga sem veitti okkur mikið öryggi og gátum við séð meira af landinu á stuttum tíma. Hann var samt heldur latur að okkar mati og reyndi hann endalaust að svindla á okkur. Ég mæli með að vanda valið vel ef planið er að hafa bílstjóra.
Maturinn þarna var mjög góður á réttu veitingastöðunum, svolítið spicy en samt ekki of. Ég fékk mér alltaf kjúkling og slapp það bara vel. Maður hafði það á tilfinningunni að maturinn væri hreinn enda er mikil uppspretta á bæði ávöxtum og grænmeti í landinu. Morgunmaturinn var í uppáhaldi hjá mér því maður fékk svo ferska og góða ávexti með, beint úr trjánum!
Við vorum 7 daga í Sri Lanka og sáum aðeins brot af þessu fallega landi. Ég gæti vel hugsað mér að fara þangað aftur og vera lengur. Það var gaman að upplifa menninguna þarna og líða eins og maður væri kominn aftur til fortíðar. Þeir sem eru ekki í fullri vinnu við að reyna að græða á túristum mættu manni með hlýju og bros á vör. Það var fólk sem var ánægt með það sem það hafði og lét ekki peninga stjórna hegðun sinni og líðan.
– Anna Guðný
No Comments