Sagan mín

Þegar að ég var aðeins 17 ára gömul þurfti ég að gera miklar breytingar í mataræðinu, ég var með mikið fæðuóþol og mikið sem ég þurfti að taka út úr fæðunni. Ég þurfti m.a. að hætta að borða mjólkurvörur, unnin sykur, hveiti og síðar glúten. Áður en það uppgötvaðist að ég væri með fæðuóþol var ég kvalin í maganum í nokkrar vikur og missti mikið úr skóla. Enginn læknir gat fundið út hvað væri að hrjá mig og var ég heppin að frétta af náttúrulækninum, Matthildi Þorláksdóttur. Hún sá að ég væri með fæðuóþol og hvaða fæða það væri sem ég þyldi ekki.

Ég var á mjög erfiðum aldri til að takast á við þetta og fannst mér virkilega ósanngjarnt að ég skyldi lenda í þessu og vorkenndi ég mér mjög mikið. Það var mjög erfitt að taka svona mikið úr fæðunni í einu og sérstaklega þegar hugarfarið var ekki að vinna með mér. Ég strögglaði með þetta í ca. 2 ár. Þá fór ég til þerapista því ég var viss um að andlega hliðin hefði mikil áhrif á magann minn líkt og mataræðið. Markmiðið var að vinna úr kvíða og þunglyndi svo ég gæti nú farið að borða eins og áður. Eftir nokkra tíma hjá þerapista mínum, Guðbjörgu Ósk, áttaði ég mig á því hversu mikil blessun þetta fæðuóþol væri. Allt sem gerist í lífi okkar gerist af ástæðu og ég átti að fá þetta fæðuóþol til að geta hjálpað fólki í framtíðinni út frá minni eigin reynslu. Ég á að hjálpa fólki að skilja hvað holl og hrein fæða er mikilvæg fyrir okkur og hún getur hreinlega bjargað mannslífum.

img052Eftir að hafa prufað oft að neyta fæðunnar sem ég hafði óþol fyrir sá ég hversu illa mér leið af henni, bæði andlega og líkamlega. Ég fór að hafa áhuga á hollu mataræði og áttaði mig á því hvað það væri mikið í fæðunni sem er ekki gott fyrir okkur. Margt af því sem ég þoldi illa var eitthvað sem við mannfólkið eigum yfir höfuð ekki að vera að borða og getur verið rót ýmissa sjúkdóma og annarra heilsufarsvandamála. Eins hef ég fengið að sjá svo skýrt hversu mikið hlutverk andlega hliðin spilar. Ég fæ alveg jafn mikla verki þegar ég er kvíðin eða langt niðri fyrir og þegar ég neyti fæðu sem ég hef óþol fyrir. Þetta helst allt saman í hendur og er mikilvægt að hafa hlutina í jafnvægi.

Í dag er ég gríðarlega þakklát fyrir mína reynslu og veit að allt gerist af ástæðu. Ég hef mikinn áhuga á bæði andlegri og líkamlegri heilsu og hef verið að deila með fólki uppskriftum, fróðleik og fl. hér á blogginu. Markmið mitt með blogginu er að sýna fólki hversu auðvelt það er að borða hollt og hversu mikilvægt það er fyrir heilsu okkar. Eins hversu mikinn þátt andlegi þátturinn spilar. Það má með sanni segja að ég hafi fundið minn tilgang í lífi mínu og gæti ég ekki verið hamingjusamari með það.

4 Comments

 • Reply Sigurveig Sigurðardottir 23. nóvember, 2017 at 11:42

  Til hamingju með að hafa uppgötvað samhengið milli þess sem við hugsum og borðum og ástands líkama og sálar svona ung.
  Ég er 83ja ára og nýfarin að sjá. Er að byrja jólaundirbúninginn með því að safna góðum uppskriftum. Takk fyrir.

  • Reply heilsaogvellidan 26. nóvember, 2017 at 00:28

   Takk kærlega fyrir það Sigurveig. Mér finnst mjög aðdáunarvert að opna augun þegar maður er orðin 83 ára, þú mátt sko vera stolt af því!
   Njóttu jólaundirbúningsins og ég vona að þú verðir ánægð með uppskriftirnar <3

 • Reply Inga 5. mars, 2018 at 13:55

  Sæl! Frábær síða, takk fyrir að deila með okkur hinum! 🙂

 • Leave a Reply