Hugsaðu

Næringarríkt mataruppeldi

Sjálf á ég yndislegan strák sem að er 6 ára þegar að ég skrifa þessa grein. Frá fæðingu hefur það verið mér hjartans mál að gefa honum holla fæðu á sem girnilegastan máta og mögulegt er. Auðvitað hefur það gífurleg áhrif að þegar að hann kom í heiminn var ég sjálf búin að gera miklar betrumbætingar á eigin mataræði. En mataræði mitt hefur samt breyst heilmikið síðan þá með hlustun á eigin líkama og að vera stöðugt að fræða mig um heilsubætandi mataræði. Með því að sjá á eigin líkama síðastliðinn áratug hversu áhrifaríkt það er að næra mig á heilsubætandi mataræði þá er ekki aftur snúið. Breytingarnar og áhrifin sem ég finn fyrir eru að mér líður svo miklu betur andlega og líkamlega. Andlega er ég miklu lífsglaðari, finn fyrir jafnvægi, eldmóði og framtakssemi. Líkamlega er ég með miklu betri meltingu, ég sef betur, ég er algjörlega verkjalaus, orkumeiri, vakandi og mér finnst frumurnar í líkamanum mínum víbra af lífskrafti. Eins ýkt og það hljómar, þá meina ég það virkilega.

Hver er ávinningurinn?

Teljandi upp þessi atriði hér að ofan af hverju ég sjálf kýs að næra mig á heilsubætandi máta – þá að sjálfsögðu vil ég aðeins velja það besta fyrir barnið mitt. Ég sé svo skýrt á hans líðan eins og minni, hvaða áhrif það hefur þegar að hann fær t.d. hvítan sykur, glúten og aðra unna valkosti. Þau áhrif sem ég sé hjá honum er að hann verður mjög ör, ringlaður, fer á yfirsnúning, fær magaverki, með verri meltingu og oftar en ekki með miklar skapsveiflur. Málið er nefnilega að þetta er svo beintengt; andleg líðan og meltingin. Það er því gífurlegur ávinningur fólginn í því að næra barnið mitt á hollan máta og hafa fyrir því. Það færir barninu mínu ekki bara meiri vellíðan & ró heldur líka fjárfestingu í betra heilsufari. Það verður allt svo miklu njótanlegra. Stemningin á heimilinu verður svo miklu nærandi & betri fyrir bæði líkama og sál.

Að standa með sínum gildum

Oft hef ég verið skrýtna mamman sem leyfir ekki sleikjóa, snúða, nammi, ís og svala. Í staðin hef ég lagt mig mikið fram við að gera okkar eigin íspinna, nammi, kökur, ísa og sjeika. Þetta hef ég sjálf á boðstólnum heima hjá okkur hvenær sem hann vill og við erum reglulega að dúllast eitthvað saman í eldhúsinu að búa til eitthvað gott. Við erum ekki með neinn sérstakan nammidag heldur getur hann alltaf fengið sér eitthvað sem nærir sætuþörfina eins og ég. En málið er að með því að eiga alltaf eitthvað góðgæti til, þá er þetta ekki eins spennandi á þann hátt að hann missi sig og sé alltaf að fá sér. Þetta er til og hann fær sér þegar hann vill og hann nýtur þess svo mikið í botn enda algjört matargat eins og mamma sín.

Eins ef við erum að fara í veislur hjá fjölskyldu minni eða halda saman jól/páska, þá sé ég um að útbúa ýmislegt næringarríkt góðgæti og að hafa sem mest af heilsubætandi valkostum á borðinu. Fjölskyldan mín hefur alltaf sýnt þessu mikinn skilning og áhuga sem ég er ævinlega þakklát fyrir. Við förum samt alveg stundum í kaffiboð eða eitthvað þar sem við fáum okkur sem að ég veit að fer ekki vel í okkur, en mér finnst mikilvægt að leyfa honum að upplifa að hann sé með og sé ekki útundan með að fá ekki eins & hinir. Einnig fær hann ýmislegt hjá pabba sínum sem hann fær ekki hjá mér og þar hef ég algjörlega þurft að sleppa takinu.

Einblínum á þessi 80%

Mataræðið okkar á alls ekki að vera hlaðið öfgum eða takmörkunum. Það á frekar að snúast um halda í þessi 80% og sjá til þess að í grunninn sé mataræðið hollt & nærandi. Eins finnst mér mikilvægt að fræða barnið mitt um hollt mataræði, af hverju við veljum ávexti en ekki svala? Kenna honum að líta á fæðu sem part af sjálfsást og virðingu við okkar líkama að velja það besta fyrir okkur í þessi 80% tilfella. Börn eru svo klár og sonur minn er t.d. orðinn mjög flínkur í að lesa í líkamann sinn og tengja saman áhrif mataræðis og líðan. Einnig er hann orðinn mjög fróður um hreint mataræði og hvernig á að útbúa það því hann hefur alltaf fengið að vera partur af því að útbúa það og segja til um hvað honum finnst gott & hvað ekki.

Gerðu þetta í rólegheitum og mildi

Ef þú ert að upplifa að barnið þitt vilji ekki borða holla fæðu og borði einhæfa fæðu. Þá langar mig að hvetja þig að umbreyta eigin mataræði fyrst. Þá eltir barnið þitt og þitt eigið fordæmi segir svo mikið. Stundum þarf maður líka að gefa þeim tíma í að kynnast nýjum hráefnum og matargerð. Börnin elta okkur fullorðna fólkið alltaf á endanum og svo mikilvægt að setja ekki pressu á þau að borða þetta því þetta er svo hollt. Frekar að gera matargerð út frá ástríðu, að leika sér í eldhúsinu með ást í hjarta og vera sjálfur að missa sig yfir því hvað það er gott. Leyfa þeim líka að hafa eitthvað um það að segja hvað þeim finnst gott og hvað ekki. Sonur minn borðar t.d. ekki tómata, papriku og kartöflur – það er í góðu lagi og ég sleppi því þá að setja það á diskinn hans. Ég set það samt oft á borðið og sé hvort hann vilji smakka. Sem hann gerir stundum og er í rauninni alltaf mjög tilbúinn að smakka eitthvað nýtt þó hann sé hreinskilin með hvað honum þyki gott og hvað ekki.

Af hverju er þetta mikilvægt?

Það að ala barnið mitt upp á heilsubætandi mataræði er mér mjög mikilvægt. Auðvitað væri þægilegra að henda cocoa puffsi í skál, gefa honum spagettí, samlokur og pasta í kvöldmatinn. En þá er svo margt sem hann fer á mis við bæði í vellíðan en einnig í matarþroska. Við gerum börnin okkar matvönd með því að kynna þeim ekki fyrir fjölbreyttu fæði. Sem ég skil vel í mjög hröðu samfélagi, að við veljum þægindi og fljótlegheit. En það er svo innilega hægt að gera holla fæðu spennandi á einfaldan máta og það er eitthvað sem ég hef þurft að læra að gera sjálf sem sjálfstæð móðir með takmarkaðan tíma. Þess vegna bjó ég til netnámskeiðið Hollt gert einfalt; til að hjálpa öðrum að læra að gera holla fæðu mjög girnilega á skjótan máta.

Elsku foreldri, það að taka ábyrgð á mataræðinu hjá þér og barninu þínu er eitt það mikilvægasta sem þú getur gert. Í landi þar sem að börn eru alltaf að greinast með fleiri atferlisvandamál og vanlíðan, gerum það sem við getum og höfum áhrif á það sem við getum haft áhrif á. Verum breytingin sem við viljum sjá í samfélaginu. Það að ala barnið sitt upp á hollan máta á ekki að vera óhefðbundið og skrýtið, það ætti að vera hið nýja venjulega miðað við þær upplýsingar sem við höfum um heilsu og lífsstíl í dag.

Þér er frjálst að senda mér spurningar ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað þig með þarna. Einnig er ég með netnámskeiðið Endurnærðu þig fyrir þá sem vilja innleiða holla fæðu og lífsstíl á mjög geranlegan hátt með góðum stuðningi frá mér.

Ást til þín,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply