Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Mjólkurlaust kartöflu”gratín” sem þú verður að prófa!

Það væri svo innilega ekkert mál fyrir mig að lifa bara á kartöflum. Draumurinn er að eiga heima á stóru landi út fyrir borgina þar sem ég get ræktað endalaust af kartöflum, þá væri ég vel sett út lífið af mat og fullkomlega sjálfbær. Ok nei, kannski ekki alveg…

EN

Ég ELSKA kartöflur og stundum þegar ég nenni ekki að elda þá geri ég þetta kartöflugratín og borða það eintómt því það er svo sturlað gott! Það kemst bara ekkert annað að þegar að það er komið úr ofninum en að borða bara það. En þó það sé fljótlegt og rugl gott að þá býður það samt auðvitað upp á ýmsa möguleika eins og önnur kartöflugratín. Það væri t.d. frábært meðlæti yfir hátíðirnar með hnetusteik, salati og sveppasósu. Mmmmm!

Mjólkurlaust kartöflugratín

Uppskrift fyrir 4 ef gratínið er hugsað sem meðlæti með mat

  • 660 gr. íslenskar kartöflur
  • 500 ml haframatrleiðslurjómi frá naturli
  • 6 stönglar af íslensku rósmarín
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 msk rósapipar
  • Svartur pipar
  • 1/2 msk gróft salt

Aðferð:

  1. Skerðu kartöflurnar í þunnar sneiðar og raðaðu þeim í eldfast mót.
  2. Næst getur þú hrært öllum hinum hráefnunum saman í skál og hellt yfir kartöflurnar.
  3. Bakað í ofni við 180°C í góðar 30 mín eða svo, þú stingur gaffli í og athugar hvort að þetta sé tilbúið.
  4. Ég mæli svo með að láta þetta bíða aðeins inni í ofninum eftir að þú hefur slökkt á honum áður en þú tekur þetta út. Þá myndast svona fallegt þykkt ”osta”lag yfir gratínið.

Snilldin við þetta gratín er þessi hafrarjómi frá naturli því að það verður þessi fallega húð yfir gratíninu sem gerir það að verkum að maður þarf engan ost í það. Hafrarjóman hef ég keypt í krónunni og tek það fram að ég er alls ekki að auglýsa þessa vöru né í neinu samstarfi við naturli. Þetta er bara virkileg meðmæli frá mínu hjarta til þíns. En ég tek það þó fram að varan inniheldur repjuolíu, hrísgrjónahveiti og eitthvað fleira sem er alls ekki skaðlegt en þetta er ekki vara sem ég myndi alltaf vera að nota í eldhúsinu í matargerð. Ég reyni að borða ekki of mikið af olíum í minni fæðu og er meira fyrir að nota hreina kókosmjólk í pottrétti og súpur. En í þetta gratín finnst mér þessi hafrarjómi vera algjört lykilatriði og er hann einnig æði í sveppasósur.

Njóttu hvers einasta bita elsku gull!

Ást,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply