Mataræðið mitt hefur einkennst af mjög miklum einfaldleika upp á síðkastið en á sama tíma gert mjög mikið fyrir bragðlaukana mína og almenna líðan. Ég er nefnilega alltaf að sjá það betur & betur að það að borða holla og góða fæðu þarf alls ekki að vera neitt flókið. Það eina sem skiptir máli er að raða saman hráefnum sem að öll eiga það sameiginlegt að leika við bragðlaukana þína og láta þér líða virkilega vel.
Ég ætla því að deila með þér hugmynd að einni slíkri máltíð og hvet þig í leiðinni til að prufa að útbúa svona næringarríka skál handa þér sem að er stútfull af næringu, brögðum og ást.
Það að útbúa handa sér næringarríkan mat sem að þú veist að er að fara að láta þér líða vel; er að mínu mati eitt fallegasta form af sjálfskærleik og sjálfsást.
Litrík tófúskál
Skálin samanstendur af:
- Fersku rauðkáli
- Kartöflum
- Ólífum
- Tófúi
- Granatepli
- Appelsínu
- Lárperu (Avocadoi)
- Sinnepskasjúsósu
Sinnepskasjúsósa
- 200 g kasjúhnetur
- 2,5 dl vatn
- 1 tsk gróft sinnep
- 2 tsk sítrónusafi
- 1/2 tsk ítalska hvítlaukskryddblandan frá pottagöldrum
- 2 döðlur
- 1/4 tsk gróft salt
- Smá sítrónupipar
Öllum hráefnum skellt í blandara þar til að orðin er til silkimjúk sósa. Ef þér finnst hún of þykk þá bætir þú meira af vatni og smakkar til með kryddum.


Aðferð:
1. Byrjaðu á því að skera niður kartöflur, skvetta örlítilli ólífuolíu, vatni, sítrónupipar og salti (ég notaði blóðbergssaltið frá saltverk, ég ELSKA það á kartöflur). Blandaðu þessu svo saman með höndunum og bakaðu í ofni við 180°C þar á undir & yfir hita á blæstri þar til að þú getur auðveldlega stungið hníf í gegn.
2. Næsta mál á dagskrá er að útbúa sinnepskasjúsósuna.
3. Þá er komið að því að útbúa tófúið. Höfum þetta mjög einfalt; taktu tófúið úr pakkningunni og skerðu það niður í jafna teninga. Settu það í eldfast form og skvettu smá tamarisósu, hvítlaukskryddi, salti og pipar á það. Blandaðu vel saman með höndunum. Bakaðu á 180°C við undir & yfir hita á blæstri. Það er eftir stærð teninganna hversu lengi þú hefur það í ofninum. Gott að fylgjast með því að velta því aðeins við til þess að sjá til þess að það eldist jafnt. Endilega taktu það svo út þegar það er orðið fallega gullbrúnt á köntunum. Leyfðu því að kólna alveg áður en þú borðar það.
4. Rauðkál & appelsínur; skerðu niður rauðkál í litlar ræmur og settu í skál með niðurskornum appelsínubitum. Gott að nudda þessu svolítið saman og leyfa appelsínusafanum að mýkja rauðkálið.
5. Svo er það bara að sækja ólífur, skera niður lárperu & opna granateplið og ná í fjársjóðinn sem er þar inni.
6. Raðaðu þessu fallega saman í skál.


Það er mér svo innilega mikil ástríða að sem flestir næri sig á heilnæmastan hátt og opni augun fyrir mættinum sem hrein fæða hefur. Mátturinn er nefnilega mjög mikill. Ég upplifi það alla daga að það að velja holla fæðu hefur allt með það að segja hvernig dagurinn verður og hversu vel mér líður. Þegar að ég næri mig á heilnæman máta þá er ég mjög orkumikil, það víbrar allt innra með mér og allt sem ég tekst á við er svo lítið mál. Ég á auðveldara með að viðhalda daglegri rútínu sem styður vel við mig eins og t.d. að fara út að hlaupa, hugleiða, sinna vinnunni minni, eiga góð samskipti, njóta með fólkinu mínu o.s.frv.
Endilega gefðu þér tíma að sjá til þess að þú nærir þig á þann hátt sem lætur þér líða vel og vertu vakandi fyrir því hvaða fæða lætur þig virkilega skoppa um af kæti.
Ást frá mér til þín,
Anna Guðný
No Comments