Ég get bara ekki hætt að gera hrákökur þessa dagana, það er í alvörunni ekkert betra en fullkomlega mjúk hrákaka sem bráðnar í munninum á manni. Svona kökur eru líka svo næringarríkar og innihalda mjög holla fitu. Mér finnst því alltaf gaman að verða smá södd af svona köku en það gerist akkurat hið andstæða ef ég myndi fá mér köku á kaffihúsi sem inniheldur unninn sykur, hvítt hveiti og aukefni. Við eigum skilið að gefa líkamanum okkar allt það besta og þess bera að njóta í botn. Það er fullkomið að koma sér vel fyrir undir teppi, gæða sér á góðri hráköku og hafa heitt te á kantinum þegar að það er byrjað að kólna úti.
Þessi hrákaka er virkilega auðveld í framkvæmd ef maður er með rétt tæki og tól. Mér finnst alltaf best að gera botninn í matvinnsluvél og gera svo kasjúlagið með blandara. Ef að maður er ekki með öflugan blandara er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti áður en þú skellir þeim í blandarann, þannig verða þær líka auðmeltanlegri. Maður þarf samt alls ekki besta blandara í heimi til að gera svona hráköku, þetta snýst um að blanda bara nógu lengi þar til að lagið verður alveg silkimjúkt.
Í þessa hráköku ákvað ég að prufa að nota kókosjógúrt frá Abbot Kinney’s en það er loksins komið aftur hingað til landsins. Það klárast samt alltaf strax þegar að það kemur ný sending en vonandi fer það að verða alltaf til. Kókosjógúrtið gaf mjög skemmtilega áferð í þessa köku og góðan keim í bragðið, ég mæli alveg með því að eltast við það. Það fæst í nettó, ég veit ekki með aðrar verslanir. Ef það fæst ekki myndi ég nota þykka hlutan úr biona kókosmjólk, það virkar alltaf vel og er alls ekki síðra. Ég tek það fram að ég er ekki að auglýsa þetta jógúrt.
Limehrákaka
Botn
- 250 g döðlur
- 50 g haframjöl
- 150 g kókosmjöl
- 4 msk möndlusmjör
- 2 msk kókosolía
- gróft salt
- Skelltu öllum innihaldsefnunum saman í matvinnsluvél þar til að þetta er fallega blandað saman.
- Þrýstu botninum niður í smelluform eða eitthvað annað form.
Limefyllingin
- 2 msk lime safi
- 1/3 tsk rifin limebörkur
- 250 g kasjúhnetur
- 2 dl kókosjógúrt
- 5 msk kókosolía
- 80 ml hlynsíróp
- 1/3 tsk vanilluduft
- 1/2 tsk gróft salt
- Byrjaðu á því að leggja kasjúhneturnar í bleyti, þú vilt hafa þetta lag alveg silkimjúkt. Legðu kasjúhneturnar í bleyti yfir nóttu eða allavega í 3 klst.
- Skelltu síðan öllum innihaldsefnunum saman í blandara þar til að þetta lag er alveg silkimjúkt.
- Helltu laginu yfir botninn og skelltu þessu í frystirinn.
- Ég mæli síðan með því að láta kökuna standa í ca. 30 mín áður en að þú borðar hana, hún er svo góð þegar að þú getur rennt skeiðinni auðveldlega í gegnum hana.
No Comments