Njóttu Morgunsins

Kókos&kasjújógúrt

Ég elska að tilraunast í eldhúsinu og finna leiðir til að borða allt það sem mig langar í. Í þetta sinn langaði mig ofboðslega í gott jógúrt til að geta átt í morgunmat. Við tók mikil rannsóknarvinna á internetinu til að finna uppskrift af góðu jógúrti sem væri laust við unna sætu, og að sjálfsögðu mjólkurvörur. En jógúrtheimurinn tók ekki vel á móti mér í fyrstu þar sem að það er margt sem spilar inn í hið fullkomna jógúrt. Það skiptir t.d. máli hvaða kókosmjólk maður notar og þar strandaði ég alveg því að ég vil ekki nota hvaða kókosmjólk sem er þar sem að það eru oft mikið af aukaefnum í kókosmjólk. En ég er mjög hrifin af kókosmjólkinni frá biona sem að er bæði lífræn og er án allra aukaefna. Ég ákvað því að búa til mína eigin uppskrift af jógúrti og nota biona kókosmjólkina. Nokkrum tilraunum seinna er útkoman þessi og er ég mjög sátt með hana.

Uppskriftin

  • 1 dós biona kókosmjólk
  • 1 bolli kasjúhnetur lagðar í bleyti
  • 3 hylki af meltingagerlum frá TerraNova
  • 1/2 tsk möluð chia fræ (ég mala þau í kaffikvörn)
  • 1/4 tsk vanilluduft
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1/2 tsk hlynsíróp
  • 1/4 tsk gróft salt
  1. Byrjaðu á því að finna þér tandurhreina krukku og helst að skola hana með heitu vatni sem þú ert búin að sjóða. Passaðu einnig að allt annað sem að þú kýst að nota sé tandurhreint, ég mæli með að hreinsa það líka með heitu soðnu vatni.
  2. Því næst lætur þú kókosmjólkina í blandara og lætur hana vinna í smástund.
  3. Færðu kókosmjólkina yfir í tandurhreinu krukkuna og hrærðu meltingargerlunum varlega saman við hana með trésleif.
  4. Settu þunnan klút yfir krukkuna og teygju yfir. Leyfðu þessu að standa yfir nóttu.
  5. Legðu kasjúhneturnar í bleyti um kvöldið líka.
  6. Næsta dag skolar þú kasjúhneturnar og setur síðan öll innihaldsefnin saman í blandara, þ.á.m. sýrðu kókosmjólkinni.
  7. Þegar að jógúrtið er orðið silkimjúkt setur þú það í nýja tandurhreina krukku og inn í ísskáp þar til að það er orðið kalt.

Það er mjög mikilvægt að mala chiafræin í duft t.d. í kaffikvörn sem að tekur enga stund.

Þá er bara ekkert annað eftir en að gæða sér á þessari dásemd. Gott er að bera jógúrtið fram með frosnum berjum, heimagerðu granóla, þurrkuðum berjum, fræjum, hnetum – bara hvað sem að þér dettur í hug og er í uppáhaldi. Þetta er alls ekki of stór uppskrift þannig að jógúrtið klárast oftast á 2 dögum á mínu heimili svo að það hefur aldrei reynt á það að sjá hversu lengi það getur geymst. 

Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply