Það getur verið svolítið snúið að ferðast um heiminn með fæðuóþol en allt er hægt ef viljin er fyrir hendi. Ef þú ákveður að hlutirnir séu ekkert mál verða þeir ekkert mál. Ég er með óþol fyrir t.d. glúteni, mjólkurafurðum og unnum sykri. Ég ferðaðist í fjóra mánuði um heiminn ásamt kærasta mínum og fórum við víða. Ég var komin með ákveðna rútínu og taktík hvernig ég tæklaði fæðuóþolið mitt í ferðinni sem ég ætla að deila með þér og vona að þú getir notið góðs af. Þessi ráð geta gagnast öllum þeim sem vilja halda sig við heilbrigðan lífsstíl á ferðalagi.
Morgunmatar ,,start-up kit’’.
Það bjargaði mér ótrúlega mikið að geta gert mér hafragraut á morgnanna. Ég ferðaðist með krukku, haframjöl, chia fræ, kanil og skeið. Haframjölið keypti ég reyndar jafnóðum og var það ekki neinn vandi að finna það. Það eru oftast hraðsuðukatlar eða boðið upp á heitt vatn á gististöðum. Ég hrærði mér alltaf hafragraut á morgnanna þegar ég vaknaði og fannst mér mjög gott að byrja daginn á þessu.
Heilsusamlegir veitingastaðir.
Ég byrjaði á að kynna mér hvort það væru einhverjir heilsusamlegir veitingastaðir á næsta áfangastað. Þá sló ég inn á google t.d. ,,Raw food restaurant in…”. Það hefur reynst mér best í gegnum tíðina að leita að hráfæðisveitingastöðum því að þeir eru oft með mikið úrval af söfum, þeytingum, hráfæðiskökum, hráfæðisréttum og elduðum mat. Það er oftast eitthvað annað í boði en hráfæði á þessum stöðum. Eins er til síða sem heitir happycow.net þar sem maður getur séð heilsusamlega veitingastaði út um allan heim.
Vítamín.
Ég fékk mér vítamínin mín á hverjum degi. Ég keypti öll mín vítamín á Íslandi og ferðaðist með þau öll frá upphafi. Ég tók með mér b-vítamín blöndu, túrmerik & svartan pipar , c-vítamín, meltingargerla, meltingarensím, óreganólauf og fjölvítamín. Þetta er mjög einstaklingsbundið hvaða vítamín við þurfum og mæli ég með því að þú fáir viðeigandi ráðgjöf varðandi það hjá t.d. næringaþerapista eða náttúrulækni.
Nýttu mátt hugsanna.
Ekki hugsa of mikið um fæðuóþolið, hugurinn er öflugri en þú gerir þér grein fyrir. Það kom oft fyrir í ferðinni að ég þurfti að láta ofan í mig eitthvað sem ég þoldi illa bara til þess eins að svelta ekki. Í þannig aðstæðum er mikilvægt að beina athyglinni ekki að því. Ég var t.d. föst út á vallarhafi í þriggja daga skemmtisiglingu með ekki beint lystugum mat á boðstólnum. Ég lét það skársta ofan í mig og var það ekki beint hrein fæða. Þá mátti ég alls ekki einblína á það hversu óhreinn þessu matur var og hvað það væri mikið í honum sem færi illa í mig. Þá myndi ég fá miklu meira illt af matnum en ég gerði. Í staðin varð ég að hugsa (og plata mig um leið) hvað þetta var allt ótrúlega hollt og gott fyrir mig. Allt sem þú hugsar hefur áhrif á líkamsstarfsemi þína.
Taktu skynsamlegar ákvarðanir.
Þegar ég fann ekki hollustustaði þá er alltaf hægt að finna eitthvað á matseðlinum sem er skynsamlegasti kosturinn. Veldu það sem þú heldur að fari minnst illa í þig og biddu um að einhverju sé sleppt og eitthvað annað sé t.d. sett í staðinn. T.d. ef ég fæ samloku, hamborgara eða ristað brauð með eggi þá sleppi ég alltaf brauðinu því ég veit hversu illa það fer í mig.
Nestaðu þig upp á hollustustöðunum og heilsubúðum.
Ég átti það til að missa mig þegar ég fann loksins holla kosti en það er bara svo mikið öryggi að finna mat sem fer vel í mann. Ég reyndi að nesta mig vel upp ef ég fann holla veitingastaði og heilsubúðir. Þá keypti ég t.d. hnetur, goji ber, orkustykki og fl. sem mér dettur í hug á hverjum stað fyrir sig. Eins ef ég er að fara í langt ferðalag yfir daginn þá reyni ég ef tími gefst að fara á hollan veitingastað og taka smá í ,,take away” til að taka með í nesti.
Ísskápur
Við reyndum að finna gistingu með ísskáp ef það var möguleiki. Sérstaklega þegar maður var að staldra við í svolítinn tíma á sama staðnum. Þá er upplagt að byrgja sig upp af ávöxtum, orkustykkjum, kókosmjólk, hráfæðisnammi og jafnvel hægt að gera sér chiagraut.
Haltu þínu striki þó þú svindlir aðeins.
Ef þú ferð útaf sporinu, fyrir alla muni komdu þér aftur á sporið og haltu þínu striki. Ekki missa þig alveg ef þú freistast í hvíta sykurinn eða annað ruslfæði. Alls ekki detta í vonleysi og vera í vonbrigðum með sjálfan þig og fá þér meira í sjálfsvorkunn þinni. Réttu úr bakinu og haltu ótrauð/ur áfram. Þetta getur orðið skelfilegur vítahringur sem maður vill ekki þurfa að kljást við á ferðalagi þar sem maður vill njóta lífsins og líða vel.
Drekktu nóg af vatni yfir daginn.
Drekktu vatn yfir daginn og nóg af því, sérstaklega ef þú ert í miklum hita. Það er oft sem maður heldur að maður sé sársvangur en maður er í raun og veru bara að skrælna upp að innan. Það er mikilvægt að vera að vökva sig allan daginn milli máltíða. Það var nefnilega einn meistari í náttúrulækningabúð í Sri lanka sem sagði mér að drekka aldrei vatn með mat, alltaf að drekka vatnið jafnt yfir daginn milli máltíða. Annars ætti líkaminn erfiðara með að melta matinn ef maður drekkur endalaust af vökva með matnum sjálfum og manni verður bumbult á eftir. Ég hef tekið eftir því að það er mjög mikið til í þessu hjá honum og er ég orðin mjög meðvituð um þetta.
Millimál eru ekkert mál.
Búðu þér til þína eigin blöndu af hnetum, berjum og fræjum. Möndlur, kasjúhnetur, gojiber, döðlur, graskersfræ er t.d. dæmi um blöndu. Það er gott að eiga þetta í töskunni og narta í um miðjan dag. Ég fór með nokkur svona mix með mér frá Íslandi til að eiga í byrjun ferðar. Ég hef ekki fundið mikið í svona mix síðan en hef oftast fundið mér kasjúhnetur og bjarga þær heilmiklu. Það vill oft verða þannig að þegar maður þarf alltaf að fara á veitingastaði og kaffihús til að borða að maður borði bara hádegismat og kvöldmat. Maður nennir ekki að vera á svona stöðum allan daginn svo það er mjög gott að hafa eitthvað svona á sér. Þá kemur maður í veg fyrir að freistast í eitthvern óþverra og borði yfir sig í kvöldmatnum.
Ég vona að þetta hafi komið þér að gagni og vil ég taka það fram að þetta á ekki bara við þá sem eru með fæðuóþol. Þetta getur gagnast öllum þeim sem vilja halda sínu striki í heilbrigðum lífsstíl á ferðalaginu. Það er langbest að reyna að vera í jafnvægi þó maður sé í fríi og reyna að halda sínu striki, sama hvort þú sért með fæðuóþol eður ei. Auðvitað má maður leyfa sér aðeins meira en venjulega en ég mæli þó með því að reyna að hafa hlutina í jafnvægi. Ég fann það á sjálfri mér þegar ég fór að vera of kærulaus í mataræðinu þá hafði það ekki bara áhrif á líkamlega líðan mína heldur gríðarleg áhrif á andlegu líðan mína líka.
Gangi þér ótrúlega vel á ferðalaginu og ekki gleyma að njóta þess að vera til <3
Anna Guðný
No Comments