Ég horfði á heimildarmynd fyrir svolitlu síðan sem að fjallar m.a. um laxafiskeldi í Noregi og hversu eitraður eldislax getur verið okkur. Ég verð að viðurkenna það að áður en ég horfði á þessa mynd þá hélt ég að laxinn sem við kaupum út í búð væri alltaf villtur – veiddur upp úr ám landsins. Ég veit ekki í hvaða draumaheimi ég var föst í en þar sem að það er aðeins hægt að veiða lax á Íslandi á sumrin þá er það ómögulegt. Eftir að hafa horft á heimildarmyndina um norska eldislaxinn þá fór ég að opna augun meira þegar ég er út í búð og skoða á laxinn sem er í boði þar. Ég áttaði mig á því hvað við vitum í raun og veru lítið um vöruna sem við erum að kaupa og oft er verið að blekkja okkur viljandi. Laxinn sem er í boði út í búð er oft í pakkningum þar sem að eina sem maður fær að ”vita” er að þessi pakkning inniheldur lax. Ég myndi t.d. vilja að það væri skýrmerkilega merkt að þetta sé eldislax því ég held að það sé ekki almenn vitneskja að við séum með eldislax á diskunum okkar.
En hvað er að eldislaxi?
Ég mæli eindregið með að þú horfir á heimildarmyndina hér að neðan til að sjá hvernig laxeldin eru í noregi en þau eru aðallega í sjó. Við hugsum flest um lax sem mjög hollan og góða uppsprettu af fitu fyrir okkur en það lítur allt út fyrir það að það sé betra fyrir okkur að sleppa eldislaxi alveg vegna mikils magns eiturefna sem hann inniheldur. Það kemur fram í myndinni að eldislax er feitari og bindur þ.a.l. meira af óæskilegum eiturefnum í sig. Einnig eru eldislaxar á mjög menguðu fiskafóðri auk þess að það eru notuð skaðleg litarefni til að fiskurinn verði rauðari.
Þar sem að mikið er um sjóeldi í Noregi sleppur gífurlegt magn árlega af eldislaxi sem hefur mjög slæm áhrif á villtan laxastofn landsins. Ég mæli með að þú lesir þessa grein hér til að fræðast meira um málið og sjáir að þetta er ekki bara vandamál í Noregi heldur gæti orðið það hér á landi líka. Í greininni kemur m.a. fram að flest laxeldi hér á landi eru í eigu norskra fjárfesta sem er mjög alvarlegt fyrir villtan laxastofn landsins.
Hvaðan kemur maturinn okkar?
Við sem neytendur þurfum að vera vakandi fyrir því hvaðan maturinn okkar kemur og hversu hreinn hann er. Ég persónulega legg mikið upp úr því að borða eins hreinan mat og mögulegt er og er það mér mjög mikilvægt. Ég er ekki að alhæfa að laxinn sem við fáum hér út í búð sé slæmur – ég er bara að benda á hversu lítið við vitum um hann. Það er þó mjög líklegt að laxinn sem við fáum út í búð allt árið sé eldislax. Hvort hann sé á þessu mengaða fóðri sem að norski eldislaxinn fær í myndinni veit ég ekki. Eins veit ég ekki hvort hann sé allur í sjóeldi og hvort hann innihaldi þessi rauðu litarefni.
Ég tel mig vera mjög vakandi neytanda en maður er alltaf að komast að einhverju nýju sem að kemur manni í opna skjöldu. Sumt veit maður kannski innst inni en vill ekki beina athyglinni að því að þá þarf maður að breyta til. Ég varð að deila þessari heimildamynd með þér og vekja athygli á henni. Hvort sem að ástandið í laxaeldum Noregs líkist íslenskum laxeldum eða ekki, þá ýtir hún undir þörfina að vita hvaðan maturinn okkar kemur. Það er ekki alltaf allt eins og það sýnist.
Hér er síðan myndin sem ég hvet þig eindregið til að horfa á.
-Anna Guðný
No Comments