Jólanna Njóttu Góðgætis

Heslihnetutrufflur

4. mars, 2017

Þessar heslihnetutrufflur eru sjúklega góðar og tilvaldar til að eiga með kaffinu við skemmtileg tilefni. Ég gerði uppskriftina viljandi litla þar sem að ég nennti ekki að vera að búa til skrilljón trufflur ef að þær yrðu síðan á endanum vondar. Núna sé ég ég afskaplega mikið eftir því þar sem að ég þrái ekkert heitar en að eiga þessar trufluðu heslihnetutrufflur til í frystinum núna. Ég mæli semsagt með að tvöfalda þessa uppskrift ef að þú ætlar ekki að liggja á heslihnetutrufflunum eins og gulli.

Heslihnetutrufflur                                                     13 stk.

Kúlurnar

 • 100g lífr. heslihnetur
 • 2 msk lífr. kókosolía
 • 150g lífr. döðlur
 • 2 msk hrákakó
 • 1/4 tsk lífr. vanilluduft
 • 1/4 tsk salt
 1. Byrjaðu á því að setja heslihneturnar inn í ofn við 150°C í 10 mín. Nuddaðu síðan hýðið af þeim þegar að þær hafa kólnað.
 2. Búðu síðan til ”smjör” úr heslihnetunum með því að setja 3/4 af þeim í matvinnsluvél ásamt bráðinni kókosolíu.
 3. Bættu öllu nema 1/4 af heslihnetunum saman við.
 4. Þegar að þetta er allt blandað vel saman setur þú restina af heslihnetunum rétt svo saman við og lætur matvinnsluvélina bara aðeins grófsaxa þær. Með því að hafa þær grófsaxaðar í blöndunni verða kúlurnar ,,krönsí”.
 5. Mótaðu meðalstórar kúlur með höndunum og settu þær svo í frysti.

Súkkulaðihjúpurinn

 • 2 msk lífr. kakósmjör
 • 4 msk lífr. kókosolía
 • 6 msk hrákakó
 • 3 msk lífr. hlynsíróp
 • 1 msk sterkt uppáhellt kaffi
 1. Settu allt saman í matvinnsluvél en settu lítið af kaffinu í einu og smakkaðu það til.
 2. Hjúpaðu kúlurnar með súkkulaðinu með því að dífa hverri og einni ofan í súkkulaðið með gaffli.
 3. Settu kúlurnar aftur í frysti og þær ættu að verða tilbúnar eftir ca. 40 mín.

Kúlurnar geymast best í frysti í loftþéttu íláti. Gott er þó að láta þær standa aðeins áður en maður nýtur þeirra.

Njóttu í botn!

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply

Vantar þig hugmyndir að hollum og bragðgóðum mat?

Þá er rafræna uppskriftarbókin mín eitthvað fyrir þig og þú getur skoðað hana í hvaða tæki sem er. Í uppskriftarbókinni eru hugmyndir fyrir allar máltíðir dagsins ásamt ýmsu girnilegu góðgæti.

Uppskriftirnar eru vegan, glútenlausar og lausar við unna sætu.

Verslaðu bókina hér