Njóttu Góðgætis

Heimagerð vegan páskaegg með “mjólkur“súkkulaði

Nú þegar styttist í páskahátíðina fannst mér tilvalið að deila með ykkur uppskrift að heimagerðum páskaeggjum sem eru bæði laus við unna sætu og mjólkurvörur. Ég ákvað að fara að tilraunast í eldhúsinu og útbúa mitt eigið páskaegg. Þetta súkkulaði er með þeim betri sem ég hef gert og mun það eflaust verða til í frystinum reglulega hjá mér hér eftir. Það minnir bara heilmikið á þetta hefðbundna páskaeggjamjólkursúkkulaði og er það besta sem ég hef smakkað!

Ástæðan fyrir því að ég hef fyrir því að útbúa mín eign páskaegg er að mér finnst það mjög skemmtileg samverustund með barninu mínu en einnig að geta verið algjörlega meðvituð um hvað það er sem páskaeggið mitt inniheldur. Ég hef ekki ennþá fundið það páskaegg úti í búð sem er bæði mjólkurlaust og inniheldur ekki unna sætu. Sjálf hef ég lifað sykurlausum lífsstíl í meira en 10 ár og það skiptir mig miklu máli að halda áfram að njóta allskyns góðgæti á heilnæman máta. Fyrir mig sjálfa hefur það verið mér afar mikið gæfuspor að hreinsa mataræðið mitt af unni sætu og hef ég lagt mikið upp úr því að næra barnið mitt á sem hreinastan máta. Í dag er það mér hjartans mál að hjálpa fólki að taka þetta spor og leyfa því að upplifa hvað gerist þegar maður hreinsar mataræðið sitt af helstu óþolsvöldum. Auðvitað erum við öll ólík og hver verður að hlusta á sinn líkama, en ég fann alltaf á mér hér áður fyrr að ég varð þreytt, orkulaus og verkjuð í líkamanum þegar ég var að borða unna sætu, glúten og mjólkurvörur. Það sem ég fann mest fyrir með sykurinn er að ég upplifði mikla fíkn í meiri sykur og meira ruslfæði.

Það sem er frábært við að gera sitt eigið páskaegg er að þú getur smakkað súkkulaðið til sjálf/ur, sett það nammi sem þú vilt í páskeggið og valið þér páskaeggjaform í þeirri stærð sem þig lystir til. Ég keypti mitt form í söstrene grene á sínum tíma en er ekki með það á hreinu hvort það fáist svoleiðis þar í dag. Mig grunar þó sterklega að svona form fáist í kökuhúsinu.

 Kókosmjólkursúkkulaði

  • 100 ml kókosolía
  • 50 ml kakósmjör
  • 60-70 ml döðlusíróp
  • 3,5 msk kakó
  • 2 msk kókosmjólk*
  • 1 msk kasjúhnetusmjör**
  • 1/2 tsk vanilluduft
  • gróft salt

*Ég notaði kókosmjólk í dós sem var við stofuhita. Ég hrissti hana áður en ég opnaði hana og þá varð hún þykkari og kremaðari en kókosmjólk sem að maður notar til drykkjar.
**Ef að þú finnur ekki kasjúhnetusmjör þá kemur möndlsmjör örugglega vel út í staðin.

  1. Byrjaðu á því að bræða kókosolíuna og kakósmjörið.
  2. Hrærðu síðan öllum innihaldsefnunum saman með písk í skál.
  3. Leyfðu súkkulaðinu að ná stofuhita, þá er gott að setja það jafnvel á aðeins kaldari stað eins og t.d. út í glugga eða örstutt inn í ísskáp. Þá nær það að þykkna aðeins og það verður auðveldara að smyrja páskaeggjaformið með því.
  4. Ég notaði páskaeggjasilikonform sem að ég fann í söstrene grene (ekki spons;) og finnst mér það fullkomin stærð. Gott er að setja páskaeggjaformið í frystirinn áður en maður setur súkkulaðið í það. Þegar að súkkulaðið hefur orðið aðeins þykkara þá setur þú súkkulaðið ofan í með skeið og passar að það sé nóg af því á alla kanta.
  5. Ef að þú hefur ekki þolinmæði til að bíða eftir að súkkulaðið kólni þá getur þú alveg sett það í formið strax en þú þarft þá að gera margar umferðir og að snúa forminu á alla kanta til að súkkulaðið nái á allar hliðar eggsins. Þá setur þú smá súkkulaði, frystir, tekur út aftur og setur meira, frystir afturo.s.frv.
  6. Lykilatriði er bara að hafa nógu mikla þykkt af súkkulaði á efstu brúninni, ca. 0,4 cm, svo að það sé ekki brothætt þegar að þú tekur það úr forminu.
  7. Þegar að eggin eru tilbúin í forminu þá tekur þú þau varlega úr og festir þau saman með því að setja súkkulaði á samskeytin.

Þó að þetta sé löng aðferðarlýsing þá er þetta mjög einfalt og afar fljótlegt því að eggin harðna á innan við 10 mínútum í frystinum.Ég setti súkkulaðihúð mórber, þurrkað ávaxtahlaup og ristaðar kasjúhnetur ofan í eggið mitt. Endilega settu þitt uppáhaldsgóðgæti. En ég mæli með því að setja ekkert í páskaeggin og líma þau ekki saman fyrr en á páskadaginn sjálfan ef að þú vilt hafa eitthvað inni í þeim. Svo eru miðarnir sem eru alltaf á yogi teum mjög sniðugir til að nota sem málshátt. 

Páskaeggin verða að geymast í frysti og bráðna fljótt við stofuhita.

Njóttu í botn og eigðu gleðilega páska!

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply