Andaðu

Galdurinn að taka á móti sjálfum sér

Haustin er sá tími sem að ég á alveg pínu erfitt með að taka á móti vegna þess að þá er sumarið búið. Ég held að margir tengi þarna og upplifi ákveðin aðskilnaðarkvíða yfir því að sumarið sé á enda. Maður veit að það er kaldari, dimmari og meira krefjandi tími framundan. En um leið og ég tek þessi kaflaskil í sátt þá elska ég þau svo mikið að ég skil ekkert í mér að hafa ekki bara tekið strax vel á móti þeim. Eina leiðin til að elska eitthvað er að finna lausnir og skoða hvernig getur maður gert hlutina meira njótanlegri.

Eitt af því sem að ég elska mjög mikið við haustin er að gefa mér oftar tíma ein með sjálfri mér, þar sem að ég sest niður og hugleiði, skrifa í þakklætisbókina mína, punkta allskonar í dagbókina, fer í bað, hlusta á kósý tónlist, kveikji á kertum, er mikið úti í náttúrunni, les bækur, borða góðan mat, hleyp, geri yoga og hugleiðslu. Það er gott að setjast niður með sjálfum sér og skrifa niður þá hluti sem maður getur gert fyrir sjálfan sig til þess að líða vel á þessum árstíma (og auðvitað alla aðra árstíma). Á þessu tímabili upplifi ég mjög mikinn skýrleika, er meira skipulögð og finnst ég mjög tengd innsæinu mínu; sennilega vegna þess að ég hægi mjög mikið á ryþmanum, er meira ein með sjálfri mér og ég hugleiði meira en t.d. á sumrin.

Það er nefnilega svo ótrúlega dýrmætt að geta verið einn með sj´álfum sér og virkilega notið þess. Þetta er eitthvað sem ég hef þurft að æfa mig mikið í eftir að ég varð einhleyp og er því meira ein þegar ég hef strákinn minn ekki hjá mér. En vá, hvað þetta hefur styrkt samband mitt við sjálfa mig mikið; að læra að njóta mín með sjálfri mér. Þetta er eitthvað sem ég hvet alla til að gera reglulega, óháð því hvort sem maður sé í sambandi eða ekki. Það að geta fyllt á tankinn sinn svona sjálfur og verið í góðri tengingu við sjálfan sig er mjög mikilvægt til þess að geta notið lífsins með sjálfum sér og öðrum. Þegar að maður gefur sér tíma til að vera einn með sjálfum sér býr maður sjálfkrafa til rými fyrir sjálfan sig að tengjast tilfinningum sínum, skoða virkilega hvernig manni líður og kafa betur ofan í sjálfan sig á mjög fallegan og auðmjúkan hátt.

Því tengdari sem maður er sjálfum sér því auðveldara er fyrir mann að mynda nærandi tengingar við annað fólk.

Að því sögðu langar mig að deila með þér einu af mínum t´ólum hvernig þú getur byrjað að búa til rými fyrir þig og hvernig mér finnst best að taka á móti sjálfri mér. Það að setjast niður með sjálfum sér á hverjum einasta degi dýpkar samband þitt við þig mjög hratt og innilega; þetta er dýrmætasta og lengsta samband ævi þinnar svo ég hvet þig til að setja það í forgang að rækta það.

Hugleiðsla

Hugleiðsla getur verið allskonar; hún þarf ekki endilega að framkvæmast með því að setjast niður með krosslagðar fætur og loka augunum. Aðalatriðið er að gefa sjálfum sér tíma & rými án áreitis í x tíma á hverjum einasta degi, þar sem þú getur fylgst með því hvað er að gerast í hausnum á þér og gripið þig ef það eru takmarkandi hugsanamynstur í gangi. Spurt þig hvernig þú getur tekið betur utan um þig og hvað það er sem þú þurfir á að halda núna. Þetta getur þú gert þegar að þú ert að keyra, í göngutúr, að brjóta saman þvottinn, í sturtu eða að elda.

Mér finnst þó best að gera þetta með því að setjast niður með krosslagðar fætur, loka augunum og stilla mig inn á við. Að finna friðinn innra með mér sama hvað er í gangi í umhverfinu. Mér finnst líka svo fallegt að ég heiðri sjálfa mig með því að gefa mér þessa athygli, þar sem ég sest niður á einskonar fund með sjálfri mér og er virkilega tilbúin að taka ´á móti mér.

Hvernig hugleiðir maður?

Það að hugleiða er ekki flókið, það er í rauninni mjög einfalt, aðalatriðið er að finna sér tíma daglega til að gera það, helst sama tíma dags, til að það verði auðveldlega partur af rútínunni. Hver þarf svo að finna fyrir sig hvaða hugleiðsluaðferð maður notar, gott er að máta sig við leiddar hugleiðslur í t.d. calm appinu, á youtube eða hvar sem er. Þaðan er hægt að byrja svo sjálfur og gera það sem manni finnst best. Ég hlusta alltaf á rólega tónlist, einblíni á andardráttinn og leyfi hugsununum að koma. Sé þær fyrir mér sem ský sem þjóta framhjá en ég tek þær ekki fyrir og fer að hugsa þær. Ef ég er í tímaþröng stilli ég klukku sem hringir eftir 11-15 mín eða vel lag sem er ca. sú lengd. Gott er að muna að hugleiðsla er æfing og að gera hana sama hvort maður sé að eiga góðan eða erfiðan dag. Hún er alltaf jafn mikilvæg, þetta er svona eins og að bursta tennurnar – alltaf jafn mikilvægt sama hvað maður borðaði yfir daginn.

Gerðu hugleiðsluna girnilega

Mér finnst best að vera með lagalista á spotify eða setja tónlist á youtube sem að er róleg og þægileg. Ég elska að draga fram uppáhalds kristalana mína, falleg spil, gera mér seremóníal kakó eða te, kveikja á palo santo, salvíu eða reykelsi, anda að mér hreinum ilmolíum og gera þetta að mjög nærandi stund með sjálfri mér. Þetta er auðvitað ekki nauðsynlegt og auðvitað getur maður hugleitt hvar og hvenær sem er án allra hluta. En þetta gerir stundina að einhverju meira fyrir mig með því að dekra við sjálfa mig með eftirfarandi hætti. Til að þurfa ekki að draga þetta allt fram á hverjum degi þá er mjög sniðugt að vera með hugleiðslu “altari“ þar sem að þú ert með hluti sem að þú veist að gera hugleiðslustundina meira girnilegri fyrir þig. Þegar að þú sérð “altarið“ langar þig ekkert meira en að setjast niður og hugleiða.

Hvað svo?

Eftir hugleiðsluna finnst mér gott að taka utan um sjálfa mig með innilegu knúsi, segja fallega hluti við sjálfa mig og draga innilega inn andan og dæsa út öllu því sem ég ætla ekki að taka með mér inn í daginn. Svo finnst mér gaman að draga spil en það fást t.d. falleg spil í systrasamlaginu, í gjafir jarðar og á lunu florens. Stundum spyr ég spurningu áður en ég dreg og stundum vil ég bara fá óvænt skilaboð án neinna spurninga. Einnig elska ég að skrifa niður í þakklætisdagbók hvað eg er þakklát fyrir og eins finnst mér oft gott að skrifa niður í dagbók hvernig mér líður, það er magnað hvað það er gott að losa tilfinningar sínar með skrifum.

´Ég strái stundum þurrkuðum rósum yfir kakóið, en þær fást í jurtaap´ótekinu.

Að lokum langar mig að deila með þér uppskrift af seremóníal kakóinu sem ég fæ mér svo oft fyrir hugleiðslu. Ég kaupi mitt á kako.is (þetta er ekki auglýsing) en þar getur þú lesið þér betur til um áhrif þess og af hverju það gerir manni gott. Fyrir mitt leiti þá hjálpar það mér að slaka meira á, minnka streitueinkenni og ég sef betur ásamt því að vera mýkri í mér einhvernveginn.

Hjartvermandi kærleiksbolli

  • 22 g seremóníal kakó
  • 2,5 dl möndlumjólk
  • kryddað með chilli, kardemommum, vanillu, kanil og örlitlu salti

Ég hita mjólkina fyrst, læt kyddin út í og hræri kakóinu saman við með písk í pottinum. Þetta er mjög lítið unnið kakó og ég vil ekki að það sé lengi í heitri mjólkinni, bara rétt í lokin áður en það fer í kroppinn minn.

Ást til þín elsku gull,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply