Salöt geta vel verið girnileg, djúsí og bragðgóð.
OG!
Það er vel hægt að verða saddur/södd af salati.
Það eina sem þú þarft að hafa í huga er að gera salatið spennandi fyrir bragðlaukana þína og augun þín. Mér finnst mikilvægt að salatið mitt sé litríkt og ég fái vatn í munninn við að horfa á það. Það besta er svo að það er leikur einn að gera þetta á þann hátt sem nærir líkama og sál.
Það er mjög mikilvægt að fá inn nóg af grænmeti í mataræðið og huga vel að því að hafa fjölbreytni í hráefnisvali. Að gera ekki alltaf sama salatið og borða alltaf sömu tegundirnar af grænmeti. Ég hvet þig til að leika þér með samsetningar og prufa að kynnast nýjum hráefnum ef þú ert alltaf að útbúa það sama sem þá hættir að verða spennandi fyrir þér.
En hvað gerir salat að góðu salati?
Að mínu mati er það skemmtileg samsetning af hráefnum og sósa, það verður alltaf að vera sósa! Ég geri mína sósu alltaf sjálf á salötin og geri þá annaðhvort kasjúsósu eða tahinisósu. Það er mun einfaldara og þægilegra að gera tahinisósu svo ég ætla að deila með þér uppskrift að slíkri. Hana er t.d. afar sniðugt að útbúa og taka með í ferðalagið í sumar.
Frískandi sumarsalat
- Radísuspírur (keypti frá ecospiru – fást t.d. í krónunni)
- Bakað brokkolí
- Ferskt lambhagasalat
- Rifnar gulrætur
- Rauðmeti – súrkál
- Ristaðar valhnetur
- Það er best að byrja á því að skera brokkolíið niður, maka smá kókosolíu á það og örlítið af vatni. Setja svo salt + pipar og þaðan inn í ofn. Mér finnst best að stilla ofninn á 200°C á undir & yfir hita en fylgjast vel með því, það verður sennilega tilbúið fyrr en manni grunar.
- Næst er tilvalið að rista valhnetur á pönnu eða setja þær í ofninn rétt í lokin með brokkolíinu.
- Gott er svo að rífa niður gulræturnar með rifjárni.
- Leyfðu brokkolíinu að kólna og valhnetunum líka.
- Blandaðu síðan öllu saman í skál og útbúðu síðan dásamlegu tahinisósuna hér fyrir neðan.
Tahini-sósa
- 2 msk. ljóst tahini
- 3 msk. heitt soðið vatn
- ½ msk. sítrónusafi
- 1 hvítlauksrif
- 1 tsk. tamari-sósa
- ½ tsk. paprikuduft
- Gróft salt eftir smekk
- Sítrónupipar eftir smekk
Aðferð:
- Hrærðu öllum hráefnunum saman með písk í skál.
- Leyfðu sósunni að kólna í loftþéttri krukku inni í ísskáp áður en þú berð hana fram.
No Comments