Njóttu Morgunsins

Einfaldur berjagrautur í krukku

Að mínu mati er mikilvægt að setja góðan tón í daginn með heilsusamlegum og girnilegum morgunmat. Það er mun líklegra að maður borði hollara yfir daginn þegar að maður byrjar morguninn á heilsusamlegan máta. En það fer þó alveg eftir einstaklingnum hvenær dagsins maður kýs að fá sér fyrst að borða. Sjálfri finnst mér best að byrja daginn rólega með vatni og fá mér ekki að borða fyrr en kannski 2-3 klst eftir að ég vakna.

En hvernig getur maður notið heilnæms morgunmatar ef maður er farin/n út úr húsi um það leiti sem maður er tilbúinn að fá sér að borða?

Látum okkur nú sjá…

  • Undirbúðu morgunmatinn kvöldið áður.
  • Hafðu hann í krukku eða öðru þægilegu íláti sem gott er að taka með í töskuna.
  • Mundu eftir að taka morgunmatinn með áður en farið er út úr húsi.

Nú ætla ég að kenna þér að útbúa ótrúlega einfaldan krukkugraut sem gott er að gera í ágætu magni sem jafnvel dugar í 3 – 4 daga. Þá þarft þú ekki að gera neitt annað en að moka honum í krukku um kvöldið ásamt þínum uppáhalds hráefnum.

Einfaldur krukkugrautur

  • 3 dl haframjöl
  • 3 dl vatn
  • 3 msk chia fræ
  • 2 dl plöntujógúrt*
  • örlítið af salti

*Jógúrtið sem ég nota er annaðhvort kókosjógúrtið frá Abbot Kinney’s sem fæst í Nettó, Soya jógúrtið frá Alpro sem fæst í Krónunni eða soya jógúrtið sem fæst stundum í Bónus. Öll þessi jógúrt eiga það sameigilegt að vera laus við sykur.

Öllu hrært saman í krukku og gott er að hræra í þessu reglulega fyrst. Svo má þetta fara inn í ísskáp og verða að unaðslegum graut yfir nóttu. Þennan graut mæli ég með að borða kaldan og ef þú vilt dekra aðeins meira við hann er tilvalið að setja í hann smá af vanilludufti og jafnvel kókosmjöli. En það þarf þó alls ekki.

Þegar búið er að útbúa vænan skammt af grautnum þá er ekki eftir neinu að bíða en að skella honum í krukku ásamt fullt af gúmmelaði. Svona raða ég þessu í krukkuna í eftirfarandi röð:

  1. Hnetusmjör
  2. Lífrænt epli, skorið niður í teninga
  3. Frosin bláber
  4. Nokkrar skeiðar af einföldum krukkugraut
  5. Meira af frosnum bláberjum og jafnvel frosnum hindberjum líka ef þú átt þau til
  6. Smá skvetta af möndlumjólk

Ávinningurinn við að útbúa graut eins og þennan að kvöldi til er ekki bara sá að þú munt eiga einfaldari og þægilegri morgunn, heldur er grauturinn mun auðmeltanlegri svona. En haframjöl þarf einmitt helst að liggja í bleyti yfir nóttu svo það fari vel í maga; sama hvort þú sért að fara fá þér heitan graut eða kaldan.

Ég mæli heilshugar með því að þú prufir að útbúa þennan graut til þess að grípa með þér í nesti. Hann hentar frábærlega sem morgunmatur en er einnig tilvalin milli mála og fullkominn fyrir æfingu dagsins.
Njóttu bæði vel og lengi elsku demantur. Það væri yndislegt að heyra frá þér og hvernig þér líkaði uppskriftin.

Ást og friður frá mér til þín,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply