Njóttu Góðgætis

Brauðið sem bætir allt og kætir

Er eitthvað betra en heitt nýbakað brauð sem vermir manni alveg inn að hjartarótum?

Sjálf var ég veik heima um daginn og leiddist óbærilega mikið. Ég kíkti hvað ég átti til í skápunum og fór að hugsa hvað ég gæti gert sniðugt. Þá fæddist þessi uppskrift og það besta var, að hún heppnaðist í fyrstu tilraun! Sem er smá svona eins og að vinna í lottóinu hjá uppskriftarskapara. Allar uppskriftir koma svona til mín, sem hugmynd sem ég bara VERÐ að prufa akkurat núna. Þegar ég hoppa á þessar hugmyndir, þá fæðist alltaf eitthvað stórkostlegt. Og vá hvað þetta brauð er búið að gefa mér mikla hlýju, gleði og knús. Er núna á mjög stuttum tíma búin að gera það þrisvar sinnum og það er að slá í gegn hjá þeim sem hafa verið svo heppnir að fá að smakka. Nú ert þú líka að detta í lukkupottin því þú ert að fá uppskriftina góðu og getur fundið fyrir þessum töfrum sem ég er að reyna að lýsa í orðum.

Brauðið er glútenlaust, inniheldur ekki hvítan sykur og er einnig vegan. Það má leika sér endalaust með krydd í uppskriftinni og getur það verið allt sem þú þarft hverju sinni. Þetta er í rauninni kryddbrauð ef þú kryddar það þannig en getur líka verið milt kanilbrauð.

Graskersbrauð

  • 5 dl haframjöl
  • 1,5 dl möndlumjöl
  • 1 dl kókosmjólk (úr dós, frekar þykk)
  • ½ dl kókosolía, bráðin
  • ½ butternut squash grasker (300 g áður en það fer inní ofn) 
  • 1,5 lífræn epli (fer líka inn í ofn 🙂
  • 2 msk möluð chia fræ
  • 3 tsk kanill
  • 1 dl kókospálmasykur
  • 1 tsk kardemommuduft
  • ¼ tsk túrmerik
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk eplaedik
  • Gróft salt

Aðferðalýsing:

  1. Þú byrjar á því að skera graskerið í helming og leggur það svo á “magann“ þannig að hýðið vísi upp í eldfast mót og bakar í ofni við 200°C í 20 mín. Þá mátt þú bæta grófskornum eplunum í formið, gott er að skræla þau áður.
  2. Þegar þú getur stungið hníf í gegnum graskerið þá er það tilbúið til að koma úr ofninum. Sama með eplin. Leyfir þessu að kólna
  3. Næst fara þurrefnin í matinnsluvél og möluð helst niður í duft.
  4. Því næst fara blautefnin saman við í matvinnsluvélina ásamt graskerinu og eplunum. Blandað vel og smakkað til með kryddunum. Ekki hika við að aðlaga að þínum bragðlaukum og nota þau krydd sem toga í þig hverju sinni.
  5. Deigið er sett í bökunarpappírsklætt brauðform og brauðið bakað við 180°C í 60 mín. En þegar að 20 mínútur eru eftir af bökunartímanum þá er gott að taka brauðið úr forminu og láta bakast áfram til að það fái smá stökka skorpu.
  6. Leyfa brauðinu að jafna sig í 2-3 klst eftir að það er tekið úr ofninum svo það molni ekki. Þessi bið er það erfiðasta og ég dæmi engan þó þú laumist í það fyrr.

Brauðið er að mínu mati langbest með kókosolíu & grófu salti eða með hnetusmjöri og epli. Ef þú prufar að gera uppskriftina væri ég mjög mikið til í að heyra frá þér hvernig þér líkaði hún í athugasemdum hér að neðan eða senda mér skilaboð í gegnum instagramið mitt: heilsaogvellidan.

Njóttu elsku gull <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply