Er eitthvað betra en heitt nýbakað brauð sem vermir manni alveg inn að hjartarótum?
Sjálf var ég veik heima um daginn og leiddist óbærilega mikið. Ég kíkti hvað ég átti til í skápunum og fór að hugsa hvað ég gæti gert sniðugt. Þá fæddist þessi uppskrift og það besta var, að hún heppnaðist í fyrstu tilraun! Sem er smá svona eins og að vinna í lottóinu hjá uppskriftarskapara. Allar uppskriftir koma svona til mín, sem hugmynd sem ég bara VERÐ að prufa akkurat núna. Þegar ég hoppa á þessar hugmyndir, þá fæðist alltaf eitthvað stórkostlegt. Og vá hvað þetta brauð er búið að gefa mér mikla hlýju, gleði og knús. Er núna á mjög stuttum tíma búin að gera það þrisvar sinnum og það er að slá í gegn hjá þeim sem hafa verið svo heppnir að fá að smakka. Nú ert þú líka að detta í lukkupottin því þú ert að fá uppskriftina góðu og getur fundið fyrir þessum töfrum sem ég er að reyna að lýsa í orðum.
Graskersbrauð
- 5 dl haframjöl
- 1,5 dl möndlumjöl
- 1 dl kókosmjólk (úr dós, frekar þykk)
- ½ dl kókosolía, bráðin
- ½ butternut squash grasker (300 g áður en það fer inní ofn)
- 1,5 lífræn epli (fer líka inn í ofn 🙂
- 2 msk möluð chia fræ
- 3 tsk kanill
- 1 dl kókospálmasykur
- 1 tsk kardemommuduft
- ¼ tsk túrmerik
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk eplaedik
- Gróft salt
Aðferðalýsing:
- Þú byrjar á því að skera graskerið í helming og leggur það svo á “magann“ þannig að hýðið vísi upp í eldfast mót og bakar í ofni við 200°C í 20 mín. Þá mátt þú bæta grófskornum eplunum í formið, gott er að skræla þau áður.
- Þegar þú getur stungið hníf í gegnum graskerið þá er það tilbúið til að koma úr ofninum. Sama með eplin. Leyfir þessu að kólna
- Næst fara þurrefnin í matinnsluvél og möluð helst niður í duft.
- Því næst fara blautefnin saman við í matvinnsluvélina ásamt graskerinu og eplunum. Blandað vel og smakkað til með kryddunum. Ekki hika við að aðlaga að þínum bragðlaukum og nota þau krydd sem toga í þig hverju sinni.
- Deigið er sett í bökunarpappírsklætt brauðform og brauðið bakað við 180°C í 60 mín. En þegar að 20 mínútur eru eftir af bökunartímanum þá er gott að taka brauðið úr forminu og láta bakast áfram til að það fái smá stökka skorpu.
- Leyfa brauðinu að jafna sig í 2-3 klst eftir að það er tekið úr ofninum svo það molni ekki. Þessi bið er það erfiðasta og ég dæmi engan þó þú laumist í það fyrr.
Njóttu elsku gull <3
No Comments