Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Blómkálssteik með vegan osti

Ég er ekki að grínast, en þetta er uppáhaldsmaturinn minn í augnablikinu. Þessi máltíð hefur það allt sem að góð málíð þarf að hafa. Blómkálið er svo gott með þessum unaðslega vegan osti sem ég birti uppskrift af um daginn. En blómkálið er svo safaríkt, stökkt og bragðgott. Salatið sem ég ber fram með þessu passar líka svo fullkomlega með blómkálinu. Þessa máltíð er mjög einfalt að útbúa og tekur það enga stund. Stundum er einfaldleikinn bestur. Það er nefnilega svo langt frá því að maður þurfi að vera sveittur í eldhúsinu í margar klukkustundir til þess að útbúa holla og bragðgóða máltíð.

Blómkáls”steik”

 1. Kveiktu á ofninum, stilltu á undir & yfir hita við 210 gráður.
 2. Byrjaðu á því að taka blómkálslaufin af blómkálinu. Skerðu blómkálshausinn í tvennt og síðan niður í sneiðar sem eru ca. 1,5-2 cm að þykkt.
 3. Settu blómkálssteikurnar síðan á bökunarpappírsklædda ofnplötu.
 4. Settu ólífuolíu og salt á blómkálssteikurnar. Settu þær síðan inn í ofn í ca. 12 mínútur.
 5. Taktu þá ofnplötuna út og settu vegan ostinn á með skeið. Settu þetta síðan aftur inn í ofn í ca. 5 mínútur eða þar til að osturinn er orðinn fallega bakaður.

Sælkerasalat

 • soðið hirsi
 • blaðlaukur
 • gúrka
 • sólþurrkaðir tómatar
 • döðlur
 • gróft salt
 • lambhagasalat

Ég mældi ekkert nákvæmlega í salatið enda algjör óþarfi þar sem að þetta er svo einfalt og notar maður bara það sem að maður á hér. Ég skar grænmetið niður og blandaði því síðan saman við soðið hirsið. Síðan skvetti ég smá lífrænni kaldpressaðari ólífuolíu yfir.

Hvaða meðlæti sem er passar í rauninni með blómkálssteikinni svo ég hvet þig til að nota það sem að þú átt og það sem að þér finnst bragðgott.

Verði þér að góðu og njóttu í botn!

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply