Njóttu Góðgætis

Ávaxtaeldflaugar

Sama hvort það sé heitt í veðri eða ekki, þá slá frostpinnar alltaf í gegn hjá litlum gullmolum. En þeir frostpinnar sem að maður kaupir út í búð innihalda mikið magn af sykri, aukaefnum og litla sem enga næringu. Því mæli ég eindregið með því að útbúa frostpinna á eigin máta í eldhúsinu heima og þá má barnið þitt þess vegna fá sér frostpinna í morgunmat – þvílíkur draumur!

Ég hef alltaf verið skýr með það við fólkið í kringum mig að ég vilji ekki að það sé að gefa barninu mínu óþarfa sykur. Ég veit hvað unninn sykur getur haft mikil áhrif á andlega og líkamlega líðan mína og get ég því varla ýmindað mér hvað gerist í líkama lítils barns þegar að það innbyrðir hann. En ég legg samt mikið upp úr því að finna út hvernig hægt er að útbúa allskyns gúmmelaði á sykurlausan og hreinan máta. Það er sko vel hægt og oftar en ekki er það miklu bragðbetra. Þar eru þessir frostpinnar sko enginn undantekning og mæli ég eindregið með því að þú prufir að útbúa þá. Þeir innihalda enga sætu og eru einungis gerðir úr ávöxtum.

Ávaxtaeldflaugar

Grænt

  • 35 g frosið spínat
  • 400 g ferskur ananas
  • 80 g ferskt kiwi

Bleikt

  • 100 g frosin hindber
  • 250 g fersk pera

Gult

  • 100g fersk appelsína (börkurinn tekin af)
  • 200 g ferskt mangó

Aðferð:

Best er að útbúa einn lit í einu, setja hann í formið og láta formið í frystirinn. Útbúa svo næsta lit og hella honum í formið þegar að hinn liturinn er orðinn ágætlega frosinn. Hægt er að útbúa litina í blandara eða matvinnsluvél. Endilega leiktu þér með það hráefni sem að þú átt til í ísskápnum heima hjá þér. Þú getur notað alla ávexti sem þér dettur í hug að nota og leikið þér með allskonar samsetningar. Ég mæli líka með að leyfa krökkunum að taka þátt í þessari ísgerð með þér eða leyfa þeim jafnvel að gera þetta alveg sjálf. Það gerir þetta ennþá meira skemmtilegt og spennandi.

Ég notaði eldflaugaform sem að fást í umhverfisvænu netversluninni mistur.is, en þar má finna fullt af fallegum og sniðugum vörum sem auðvelda manni að taka skrefin í átt að umhverfisvænni lífsstíl. Snilldin við þessi form er að þau eru úr stáli og skellir maður frostpinnaspítum í ísinn. Ég elska að maður getur tekið ísinn úr formunum, sett hann í loftþétt glerbox og gert meiri frostpinna án þess að þurfa að klára ísinn fyrst. Það er því hægt að eiga allskyns bragðtegundir til í frystinum. En mér finnst ísinn svo miklu ferskari með þessum stálformum í samanburði við að nota plastform. Þau eru líka mjög þrifanleg og þægileg í notkun.

Þessi færsla var gerð í samstarfi við mistur.is.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply