Í hraða nútímasamfélags, þar sem að auðvelt er að gleyma sér í hamsturshjóli lífsins og hoppa stöðugt frá einu atriði í annað, hefur aldrei verið jafn mikilvægt að hægja á og skoða hvað er það sem skiptir virkilega máli. Margir eru að glíma við einkenni kulnunar, kvíða, streitu og svefnleysis sem má að einhverju leyti, ef ekki öllu, rekja til þess að flestir eru með of marga bolta á lofti í einu og hversu ótengd við erum sjálfum okkur og öðrum. Það er alltaf svo brjálað að gera að við náum stundum ekki að heyra hvernig okkur líður og hvernig við gætum mætt okkur betur. Eins hefur tæknileg þróun haft mikið til um það að segja hversu hratt allt er að gerast og hvað áreitið hefur aukist mikið.
Amma mín og afi kveiktu t.d. á útvarpinu ef þau vildu heyra fréttir yfir daginn eða horfðu á sjónvarpsfréttirnar á kvöldin. Eins ef einhver vildi hitta á þau – þá komu fjölskylda og vinir spontant í heimsókn til þeirra og gáfu sér tíma og athygli til þess að spjalla og eiga góða stund saman sem hafði nærandi áhrif á þau. Engin plön voru í kringum þessar heimsóknir, fólkið þeirra einfaldlega bankaði á dyrnar og var svo innilega velkomið í heimsókn. Þegar að þau voru komin á þann aldur að hætta að vinna þá snerist dagurinn t.d. um að baka pönnukökur, verja tíma með barnabörnunum, fara í kaffi til nágrannana, fá vini yfir í spil og strauja þvottinn í rólegheitunum. Allt var svo einfalt og í þægilegu flæði. Ég elskaði að vera heima hjá þeim og nærðist svo vel í þessu flæði sem ég sakna svo mikið.
Í dag er ég að reyna að skapa þetta flæði eins mikið og ég get í mínu lífi en það er erfiðara en að segja það. Mér hefur best tekist að skapa það þegar ég fer 10 klst. í burtu frá borginni og þegar ég fer þangað vil ég helst ekki koma til baka því það hefur svo nærandi og slakandi áhrif á mig. Þar sofna ég við sjávarhljóðin og vakna við fuglasöngin. Eina sem ég geri þar er að vera í hægu flæði þar sem ég elda, baka, les, fer út í náttúruna, horfi á öldurnar út um gluggann og nýt þess að gera ekki neitt. Ég get ekki lýst því hvað þetta gerir mikið fyrir mig á bæði líkama og sál.
Okkar kynslóð er einhvernveginn alltaf með allan heiminn í höndunum á sér, við getum farið inn á fréttamiðla allan daginn, það er alltaf hægt að ná í okkur af hverjum sem vill það og auðvelt er að sjá klukkutímana hlaupa frá sér með því að vera stöðugt að fletta í gegnum allskyns miðla í snjallsímanum okkar. Við getum bæði vitað allt og séð um hvern sem er, en í rauninni þá vitum við ekki né sjáum neitt nema bara brotabrot af því sem hver velur að sýna. Það tekur okkur oft marga daga að plana hittinga með fólkinu okkar með endalausum skrifum fram & til baka í gegnum símana okkar og óvart erum við að eiga stundum meira af rafrænum ,,tengingum” í stað samveru í persónu.
Það er náttúrulegt eðli og ein af mikilvægustu þörfum manneskjunnar að tengjast öðru fólki í gegnum samveru og tengingu í persónu. Að upplifa að maður tilheyri og sé partur af samfélaginu. Þegar að við erum alltaf tengd í gegnum tæki – þá fáum við ekki þessa næringu sem fylgir því að einhver sé að hlusta á þig með allri sinni athygli með bæði eyrum og augum. Í dag er eins og það skipti meira máli að skapa einhverja ímynd af lífi sínu útávið í stað þess að næra þær tengingar sem standa manni næst í núvitund án áreitis. Amma & afi áttu eina rauða filmumyndavél sem þau smelltu örsjaldan myndir á. Annars voru þau bara í augnablikinu að upplifa stundina með þér. Mér finnst líka afar heillandi hugmynd að búa í samfélagi þar sem fólk hjálpast að og styður við hvort annað. Það veit af hvort öðru og passar upp á náungan. Enginn er einn í sínu horni né gleymist og það þarf svo lítið til þess að sýna fólkinu í kringum sig aðeins meiri kærleik.
Í samfélagi þar sem kulnun og félagskvíði er vaxandi vandi er svo mikilvægt að við lítum til baka og skoðum hvað hefur verið að virka sl. áratugi og hvað ekki. Tæknin hefur fullt af jákvæðum tækifærum fyrir okkur og ef það væri ekki fyrir hana væri ég jafnvel ekki að vinna við mína ástríðu í dag. Eins elska ég að ég geti verið í sambandi við vinkonu mína og bróðurfjölskyldu í gegnum myndsímtöl þó við séum ekki í sama landinu. Einnig er ég svo þakklát fyrir að ég geti dreift mínum boðskapi í gegnum samfélagsmiðla sem nærir sköpunarkraftinn minn svo mikið og búið til mín eigin netnámskeið þar sem ég fræði fólk um bæði lífsstíl og andlega heilsu.
Ég er ekki endilega að segja að við eigum að fara alveg til baka til fortíðar þar sem fólkið mitt bankar alltaf óvænt upp á hjá mér til að koma í heimsókn heldur frekar að skoða hvort við getum hægt einhvernveginn á eða einfaldað lífið okkar á einhvern máta. Hvað t.d. með að hafa fastan einn dag í hverjum mánuði fyrir fjölskylduhitting og annan dag fyrir vinahitting. Hafa alltaf sunnudagsbröns fyrsta sunnudag hvers mánaðar þar sem allir koma með eitthvað á borðið? Eða vera meira spontant í flæði lífsins og hringja í vini okkar og bjóða þeim í eitthvað heimabakað? Eða jafnvel hittast bara einhversstaðar úti í náttúrunni fyrir piknik, fjallgöngu eða útileiki? Farið saman í útilegu í fallegri náttúru? Hafa spilastund saman? Sama hvernig hittingurinn verður – aðalatriðið er að æfa sig að vera á staðnum með núvitund án þess að upplifa í gegnum símann né að láta hann trufla stundina. Eina leiðin til þess að geta virkilega verið í augnablikinu með öðrum þar sem þú virkilega nýtur þess og getur gefið af þér – er að byrja fyrst á þér. Að þú getir virkilega notið lífsins, augnablika með sjálfum þér og verið í þægilegu flæði með þér. Að þú leggir eitthvað af boltunum niður, einfaldir líf þitt og nærir þig fyrst. Þá getur þú nært tengingarnar í kringum þig sem að kostar ekkert að næra.
En til þess að geta það, er best að byrja fyrst að næra tengingu þína við þig og einfalda líf þitt. Þú átt skilið að njóta, upplifa og bara vera án þess að vera alltaf eitthvað að gera. Ef þú veist ekki hvar þú átt að byrja og vilt strax byrja að upplifa meira jafnvægi – byrjaðu að taka frá tíma til að vera meira út í náttúrunni. Það er alveg ókeypis og allra besta leiðin til þess að fá svör um hvernig þú getur einfaldað líf þitt og séð hvað það er sem skiptir mestu máli fyrir þig núna <3
Eins er þér alltaf frjáls að senda mér línu á anna@heilsaogvellidan.com ef þú hefur einhverjar spurningar út í uppbyggjandi einstaklingstímana sem ég er með í boði og netnámskeiðin mín.
Ást til þín,
Anna Guðný
No Comments