Njóttu Góðgætis Morgunsins

Glútenlausar bananapönnukökur

Það er fátt jafn heimilislegt en að baka pönnukökur á náttsloppnum árla morguns með upplífgandi tónlist í bakgrunninum. Taka nokkur dansspor, leyfa syninum að hjálpa mér að snúa pönnukökunum og spennan magnast með hverjum snúningnum. Pönnukökubakstur er alltaf mikið gleðiefni á okkar bæ. Þessar pönnukökur eru eitthvað sem við gerum mjög oft bæði til að njóta hér heima en líka til að taka með í nesti ef við erum að fara í eitthvað ævintýri úti í náttúrunni yfir daginn. Þær slá alltaf í gegn og klárast alltaf mjög hratt, sama hversu stóran skammt ég geri.

Bananapönnukökur

  • 2,5 dl haframjöl
  • 3 dl vatn
  • 3 döðlur
  • 2 msk chia fræ
  • 1 banani
  • 1,5 msk kókosolía, bráðin
  • 1 tsk kanill
  • Gróft salt

Eins er líka hægt að setja rúsínur í deig, bláber eða niðurskornar döðlur.

  1. Settu öll innihaldsefnin saman í blandara/nutribullet og láttu hann blanda þetta mjög vel saman þar til að þetta er alveg silkimjúk blanda.
  2. Settu smá af kókosolíu á venjulega pönnukökupönnu og dreifðu henni aðeins yfir pönnuna.
  3. Settu svo kúgaða msk af pönnukökudeigi á pönnuna og dreifðu aðeins úr deiginu. Þú getur gert nokkrar stórar, eða margar litlar eins og klatta. Þitt er valið.
  4. Settu svo helst kókosolíu alltaf aftur áður en þú setur meira deig á pönnuna.
  5. Við stráum oft kókospálmasykri yfir á okkar pönnukökur mæðginin sem gerir þetta ennþá meira gúmmelaði. Eins er líka hægt að setja rúsínur í deigið eða jafnvel bláber eða niðurskornar döðlur.

Þetta er einföld uppskrift og oft geri ég hana tvöfalda, þó það sé ekki nema bara fyrir okkur tvö – mig og 5 ára strákinn minn. En það tekur mun meiri tíma og þolinmæði að gera tvöfalda uppskrift svo ég geri oftast bara einfalda.

Þessi uppskrift er laus við glúten, unninn sykur og er einnig vegan.

Ég gerði súkkulaðisósuna bara sem skraut en hún var einhvernvegin svona

Súkkulaðisósa

  • 1/2 dl kókosolía, bráðin
  • 1/2 dl kakó
  • 1/4 dl hlynsíróp
  • 2 msk kókosmjólk
  • 1/4 tsk vanilluduft
  • gróft salt
  1. Byrjaðu á því að setja kókosolíukrukkuna undir heitt vatn í vaskinum svo að kókosolían bráðni.
  2. Hrærðu svo öllum innihaldsefnunum saman en passaðu samt að hafa kókosolíuna ekkert mjög heita.
  3. Passaðu að hafa kókosmjólkina við stofuhita áður en þú hrærir henni saman við. Súkkulaðiblandan má ekki við miklum hitastigsbreytingum þegar að maður er að gera hana.
  4. Ef að blandan verður strax mjög þykk og köld, þá getur þú sett blönduna í krukku, lokað henni og látið heitt vatn renna á hana & hrært aðeins í þessu aftur.

Njóttu elsku gull, það væri gaman að heyra frá þér ef þú prufar uppskriftina og vita hvernig þér líkaði hún <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply