Njóttu Góðgætis

Ástríðuís

Við ÍSlendingar erum örugglega með met í fjölda ísbúða og eru alls ekki öll lönd með ísbúðir opnar allt árið eins og hér heima. Ég er ein af þeim sem er gjörsamlega sjúk í ís og gæti borðað hann í öll mál ef það væri í boði. Það erfiðasta við að hætta að borða mjólkurvörur var að missa ísinn, að mínu mati. Þar kom ísvélin mín til bjargar og elska ég að tilraunast með hana.

Hér er ég með uppskrift af sjúklega góðum ís með ástaraldin og sem er virkilega góður þó ég segi sjálf frá. Ég smakkaði ástaraldin (passion fruit) í fyrsta skiptið á Bali í vor og dýrkaði ég ávöxtinn. Ég var því himinlifandi þegar ég sá glitta í ástaraldin í krónunni í sumar og fór strax í málið að gera eitthvað spennandi með það. Hér er ég með uppskrift af sjúklega góðum ís með ástaraldin og sem er virkilega góður þó ég segi sjálf frá. Það er alls ekki að finna á bragðinu né áferðinni að ísinn sé laus við mjólkurafurðir né unnin sykur.

Ástríðuís

 • 6 passion fruit (fæst í krónunni)
 • 1 bolli frosin ananas
 • 400 ml kókosmjólk í fernu (fæst í bónus)
 • 1 dl vatn
 • 4 döðlur
 • 2 msk kókospálmasykur
 • 1 msk hlynsíróp
 • 2 tsk sítrónubörkur
 • 2 msk sítrónusafi
 • ¼ tsk salt
 • 1/6 tsk negull
 • 1 tsk vanilla
 1. Skelltu öllum innihaldsefnunum í blandara og láttu hann blanda þessu vel saman.
 2. Skelltu blönduni síðan í ísvél og farðu eftir leiðbeiningum hennar.
 3. Settu blönduna í box sem passar vel í frystinn. Frystu í ca 1-2 klst.
 4. Taktu blönduna úr frystinum svona ca. 15 mín áður en þú kýst að bera hann fram.

Er ísvél nauðsynleg?

Ef þú átt ekki ísvél þá setur þú blönduna beint í frystinn og þarft þá að hræra reglulega í henni eða á ca. klst fresti í 8 tíma. Ég notaðist við þá aðferð á árum áður en mér fannst ísinn verða að klaka og gleymdi ég fljótt að hræra í honum á klst. fresti. Ég mæli með því að fjárfesta í ísvél,  mér finnst ísinn verða meira ,,fluffy” og rjómakenndari. Eini gallinn við ísvél er að maður verður að vita með 24 klst fyrirvara ef manni langar í ís, svo mitt ráð er að hafa ísskálina bara alltaf í frystinum þegar íslöngunin bankar upp á. Ísvélin mín er greinilega ekki seld lengur hér á landi en þessi hér er mjög svipuð og ódýr. Það er líka hægt að kaupa ísgerðarskál á kitchen aid hrærivél skilst mél.

Það er ekki vitlaust að eiga þennan heimatilbúna ís í frystinum fyrir nammidag vikunnar og njóta sjálf/ur ásamt fólkinu í kringum þig eins og t.d. börnunum þínum. Litla frænka mín elskar þegar ég á ís í frystinum og finnst mér alltaf gaman þegar henni finnst eitthvað í hollari kantinum gott.

Njóttu vel og lengi!

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply