Andaðu

10 leiðir til að takmarka Facebook notkun þína og öðlast betra líf.

Hefur þú tekið eftir því hvað samskiptavefurinn Facebook er ávanabindandi? Áttar þú þig á því hversum miklum tíma þú eyðir þarna inni? Værir þú til í að eyða tímanum í eitthvað annað? Hafa mannleg samskipti við annað fólk orðið erfiðari, eins og t.d. að hringja eitt símtal? Lætur Facebook þér líða vel með sjálfa/n þig? Berðu þig saman við aðra? Facebook er hálfgerður gerviheimur þar sem við birtum glansmynd af lífinu og skoðum hvort annað. Þetta veldur því að fólk fer að bera sig saman við óraunverulegu glansmyndirnar og sjálfstraustið minnkar. Hvert sem maður fer eru allir með andlitið ofan í símanum og fólk kann varla að spjalla saman lengur. Þetta er ekki þróun í rétta átt og nú er kominn tími til að taka málin í sínar hendur. Ertu með? image
Ég hef nokkrum sinnum lokað alveg fyrir Facebook og hef ég orðið meðvitaðari um hversu mikill tímaþjófur og ávanabindandi þessi samskiptavefur er. Ég er búin að ná að takmarka mína Facebook notkun mikið og nota það aðallega í tengslum við þetta blogg. Frelsið er ólýsanlegt og allt í einu hefur maður helling af klukkustundum í sólarhringnum til að gera hvað sem maður vill við. Ég hvet þig eindregið til að endurskoða Facebook notkun þína og sýna fólkinu í kringum þig meiri áhuga. Þú munt öðlast meiri tíma, betri samskipti við fólkið þitt, aukið sjálfstraust, vera meira í núinu, kynnist sjálfum þér betur, koma meiru í framkvæmd, meiri einbeitingu, vera góð fyrirmynd og ég gæti haldið lengi áfram að telja upp kostina sem fylgja því að takmarka Facebook notkun þína. Þú uppskerð eins og þú sáir.      

1. Fylgstu með því hversu miklum tíma þú eyðir á Facebook.  Gerðu nú smá rannsókn og skrifaðu niður hvað þú eyðir miklum tíma á Facebook á dag í 5-7 daga. Vertu trúr sjálfum þér í þessari rannsókn og hafðu þetta nákvæmt.      

2. Minnkaðu tímann. Minnkaðu tímann smátt og smátt í einu. Þú getur t.d. helmingað hann á hverjum degi þangað til þú ert komin/n niður í ½-1 klst. Haltu þeim tíma og ákveddu fyrirfram hvaða tíma dags þú ætlar að fara á Facebook. Það er mjög sniðugt forrit fyrir tölvur sem ég hef oft notað sem heitir Selfcontrol. Þá stillir þú þar inn hvaða vefsíður eru læstar og hvenær. Þá gætir þú t.d. stillt að Facebook sé aðeins opið milli 5-5:30 á daginn.    

3. Eyddu Facebook appinu úr tækinu þínu. Þetta er algjör skylda, klárlega það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig. Facebook appinu fylgir mikið áreiti þó að þú getir að sjálfsögðu stillt það. Með því að samþykkja Facebook og messenger öppin þá gefur þú leyfi fyrir aðgangi að öllum þínum persónulegum gögnum í tækinu þínu. Einnig fer maður minna ósjálfrátt inn á Facebook þegar appið er farið því þú þarft að slá inn vefslóðina.    

4. Hringdu í fólk. Það er bæði miklu fljótlegra og persónulegra að hringja beint í fólk í staðinn fyrir að notast við Facebook spjallið. Þetta krefst þess að stíga út fyrir þægindahringinn því það er miklu auðveldara að tala á Facebook spjallinu þar sem þú getur ofhugsað hverja setningu. Ef að fólk fer að hneykslast á því að þú svarir lítið á Facebook þá einfaldlega segir þú að þú sért lítið þarna inni og það sé langbest að hringja í þig.     

5. Sýndu fólki virðingu.  Hvernig væri nú að setja símann niður og sýna fólkinu í kringum þig þá virðingu og áhuga sem það á skilið? Það er algjör óvirðing að sökkva sér ofan í símann þegar þú hittir fólk, þá gætiru alveg eins setið heima hjá þér. Vertu hvetjandi og stingdu upp á því að allir setji símanna niður og spjalli saman.      

6. Vertu í mómentinu og tæklaðu það.  Það er skelfilega auðvelt að flýja í símann á Facebook í erfiðum aðstæðum. Það þarf þó oft ekki meira en vandræðalega þögn eða leiðilegar samræður til að fólk flýji á samskiptavefinn. Vertu með breitt bak og taktu á aðstæðunum. Þú gerir þig svo óaðgengilega/n með því að flýja í símann á meðal fólks.    

7. Facebook detox. Prufaðu að loka Facebook alveg og rifjaðu upp hvernig lífið var áður en það kom. Þegar maður lokar Facebook alveg þá áttar maður sig fyrst á því hversu háður maður er samskiptavefnum. Þetta verður erfitt fyrst en verður síðan algjört frelsi og svo algjörlega þess virði. Ef að þú opnar það aftur takmarkaðu þá notkunina við ½-1klst. à dag. Ef þetta fer úr böndunum lokaðu því þá aftur og opnaðu það þegar þú ert tilbúin. Þetta getur þú gert aftur og aftur til að þú sért meðvitaðari um notkun þína á samskiptavefnum.    

 8. Fáðu fólk með þér í lið. Skoraðu á fólkið í kringum þig að koma með þér í Facebook detox eða að minnka notkunina niður í ½-1 klst. á dag. Þetta verður svo hvetjandi og skemmtilegt ef margir eru í þessu saman. Sniðugt er að skora á þá sem þú eyðir miklum tíma með svo þið getið stutt hvort annað og gert eitthvað saman. Rúsínan í pylsuendanum er að þið munið eiga góðar stundir saman og búa til nýjar minningar.    

9. Skipulegðu eitthvað skemmtilegt. Vertu frumkvöðull innan vinahópsins og fjölskyldunnar. Skipulegðu eItthvað skemmtilegt með fólkinu þínu þar sem öll Facebook notkun er bönnuð og markmiðið er að njóta samveru hvors annars. Þetta gæti t.d. verið smá road-trip, sumarbústaðarferð, fjallganga, göngutúr, íþróttaiðkun eða hittast á kaffihúsi. Þetta þarf ekki að vera eitthvað svakalegt, allt er betra en ekkert.    

10. Lærðu að vera einn með sjálf-ri/um þér. Það er mjög mikilvægt að eyða tíma með sjálfum sér til að rækta sjálfið. Þá verður miklu auðveldara að fylgja innsæinu og takast á við erfiðar aðstæður þegar á reynir. Lestu góða hvetjandi bók, gerðu yoga, hugleiddu, farðu í göngutúr eða bara hvað sem lætur þér líða vel og slaka á.

Þessi atriði eiga að sjálfsögðu um öll snjallsímaforrit sem maður festist í. Það þýðir ekki að takmarka Facebook notkunina og vera síðan allan daginn á t.d. Instagram, Snapchat og Twitter. Ég hvet þig til að prufa að loka Facebook alveg og sjá svo til hvort þú vilt opna það aftur. Vertu dugleg/ur að hringja í fólkið þitt þegar þér dettur í hug og það mun þá gera það sama við þig. Boltinn er hjá þér og margir halda að þegar maður hverfur af Facebook að fólk eigi að gefa manni svigrúm.

Ég vona að ég hafi vakið þig til umhugsunar kæri lesandi, gangi þér vel.

-Anna Guðný <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply