Lærðu

What the health

18. júní, 2017

Ég er lengi búin að vera á leiðinni að horfa á heimildarmyndina What the health sem kom út ekki fyrir svo löngu. Ég á það nefnilega til að mikla það fyrir mér að horfa á heimildarmyndir því ég held að þær séu allar svo þurrar og leiðilegar. En þessi var það sko aldeilis ekki og sat ég stjörf allan tímann og langar mig helst að horfa á hana aftur.

What the Health er eftir sömu kvikmyndagerðarmenn og gerðu heimildarmyndina Cowspiracy sem ég mæli líka rosalega mikið með en þú getur lesið nánar um hana hér. Kvikmyndagerðarmaðurinn Kip Andersen leggur ekkert smá mikið á sig til að komast til botns í því sem hann er að grúska í hverju sinni. En í þessari mynd, What the Health, er verið að fjalla um hvaða mataræði er best fyrir okkur til að fyrirbyggja og snúa við krónískum sjúkdómum. Einnig er farið í saumana á því af hverju leiðandi heilbrigðisstofnanir Bandaríkjanna vilja halda þessum upplýsingum leyndum þrátt fyrir að það séu til mikið af vísindalegum rannsóknum sem að liggja fyrir um mataræði og tengsl þess við sjúkdóma .

Ég ætla ekki að segja of mikið heldur mæli ég frekar með að þú horfir á myndina sjálf/ur. Þetta er mynd sem að allir verða að sjá og því fyrr sem þú gerir það því betra. Það sem kemur fram í þessari mynd er eitthvað sem þú vilt vita af fyrir þig og fjölskyldu þína. Hún opnaði augun mín mjög mikið og er ég virkilega þakklát fyrir að það sé til fólk þarna úti sem að leggur mikið á sig til að koma svona mynd á framfæri fyrir okkur hin til að njóta góðs af.

Það er svo margt sem er fast í hausnum á okkur hvað varðar mataræði sem er bara biluð trú sem að varð til af mjög góðri markaðssetningu matvælaiðnaðarins. Við getum ekki treyst matvælaiðnaðinum og auglýsingum þeirra fyrir því hvað er best fyrir okkur að borða. Enda eru þeir bara að auglýsa sínar vörur með því markmiði að við, neytendur, kaupum þær. En það sem er verra er að við getum ekki heldur treyst heilbrigðisgeiranum fullkomlega hvað sé rétt í þessu máli. Læknar fá litla menntun í því hvaða mataræði er best og hversu mikilvægt það er fyrir heilsu okkar, þó að læknar sem tala um mikilvægi mataræðis fari fjölgandi sem er vissulega jákvætt. En flest okkar treystum við læknum 100% fyrir öllu sem viðkemur okkar heilsu og setjum alla okkar ábyrgð til þeirra sem er kannski ekki nógu sniðugt. Við þurfum að taka sjálf ábyrgð á okkar heilsu og líðan þó að það sé auðvitað gott að leita ráða hjá lækni.

En það getur verið erfitt að horfast í augu við að við höfum látið blekkja okkur hvað varðar hollt mataræði og förum við því oft í mótþróa við heimildarmyndum sem þessum. Það er mjög eðlilegt og bara mannlegt. En eftir að hafa horft á svona mynd er fræi plantað í hausinn okkar sem hefur áhrif á að við getum ekki hugsað eða hagað okkur eins og áður. Ég hvet þig eindreigið til að horfa á myndina og að þú takir ábyrgð á þinni heilsu og vellíðan. Það gefur þér svo mikið frelsi og er það besta sem þú getur gert fyrir sjálfa/n þig.

Myndin er komin á youtube þar sem þú getur séð hana frítt en best væri náttúrulega að kaupa hana og streyma henni hér. Einnig er hún komin á netflix.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply