Njóttu Millimála

Glútenlausa brauðið hennar Önnu

26. janúar, 2015

Það getur verið svolítið snúið að vera með glútenóþol þegar kemur að bakstri. Ég er búin að gera margar tilraunir með glútenlaust brauð og ég held að ég sé loksins sátt með útkomuna. Það er svo oft sem ég geri mér möndlumjólk og er að vandræðast með hvað skal gera við möndluhratið. Ég notaði því möndluhratið í þessa uppskrift og kemur það mjög vel út.

Það er eitthvað svo notalegt við það að baka brauð sjálfur og fá brauðilm inn á heimilið. Þetta brauð er rosalega gott í magann enda er það laust við öll aukaefni, ger, glúten og fl. sem lætur okkur oft verða útþanin eftir brauðát. Það er því hægt að fá sér þetta brauð með góðri samvisku og gott að grípa í það milli mála. Þó mæli ég nú ekki með fleirum en 2-3 svona sneiðum á dag. Ég geri frekar stóran skammt af brauðinu í senn og frysti stóran part af því. Ég kippi oft út ca 1-2 brauðsneiðum á kvöldin áður en ég fer að sofa og þá eru þau tilbúin næsta morgunn. Ég elska að geta græjað mat fyrirfram og að eiga eitthvað í frystinum sem maður getur gripið í þegar maður er á hlaupum.

Glútenlausa brauðið hennar Önnu

Frekar stór uppskrift (29 cm á lengd formið sem ég notaði)

 • 240g möndluhrat/möndlumjöl
 • 60g hörfræ
 • 60g graskersfræ
 • 60g kókosmjöl
 • 4 msk chiafræ
 • 4 msk husk
 • 4 msk kókoshveiti
 • 2,5 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 3 lítil egg
 • 300ml vatn – (ef þú notar möndluhrat sem er yfirleitt smá rakt þá myndi ég setja 280 ml af vatni)
 • 3/4 bolli kókosolía
 • 2 msk sítrónusafi
 1. Stiltu ofninn á 180°C.
 2. Settu möndlumjöl/hrat, graskersfræ, hörfræ, chiafræ og kókosmjöl í blandara eða matvinnsluvél þangað til þetta verður að mjöli.
 3. Settu blönduna úr blandaranum/matvinnsluvélinni í hrærivélaskál og bættu restinni af þurrefnunum saman við.
 4. Næst skaltu setja öll blautefninn saman við og blanda vel saman við þurrefnin í hrærivélinni. Deigið á ekki að vera neitt svakalega blautt.
 5. Settu degið í form með sleif. Formið sem ég notaði var 29 cm á lengd.
 6. Bakaðu brauðið í 30 mín við 180°C. Taktu þá brauðið úr forminu og bakaðu það áfram í 60-65 mín. Ástæðan fyrir því að það er gott að taka það út úr forminu eftir 30 mín er að þá kemur svo flott og góð skorpa á brauðið.

Sniðugt er að skera helminginn af brauðinu í sneiðar og frysta það. Þá á maður alltaf til brauð í frystinum og tekur út kvöldið áður fyrir næsta dag.

2015-01-15-14-34-58

Uppáhaldið mitt þessa dagana er brauð með avacado, eggi, salti og pipar. Það er sko vel hægt að fá sér brauð án þess að setja smjör og ost á það. 

Glútenóþol er mjög algengt meðal fólks en það er ekki alltaf sem að fólk veit af því. Ég hvet ykkur til þess að skoða hvernig ykkur líður eftir að hafa borðað sneið af þessu brauði samanborið við sneið af venjulegu brauði sem þú kaupir út í búð. Ef þú lest á innihalslýsingarnar á brauði út í búð í dag þá er hellingur af innihaldsefnum sem við vitum ekki einu sinni hvað er. Helling af aukaefnum, E-þetta og E-hitt. Það er meira að segja sykur í brauði! Hverjum hefði dottið það í hug? Eina leiðin til að vera öruggur um að maður sé að borða hreina fæðu er að útbúa hana sjálfur, þá veistu 100% hvað þú ert að láta ofan í þig. Auk þess er það miklu betra. 

Njótið vel <3

You Might Also Like

2 Comments

 • Reply Björg Hilmisdóttir 5. september, 2016 at 09:53

  þetta brauð er besta brauð sem ég hef smakkað !!! Síðan þín er mjög fróðleg og skemmtileg og ég er rétt að byrja að lesa og prófa uppskriftir 🙂

  • Reply heilsaogvellidan 28. september, 2016 at 13:08

   Gaman að heyra Björg, alltaf gaman að heyra að fólk sé að lesa og prófa uppskriftirnar 💜

  Leave a Reply