Njóttu Millimála

Hugmyndir að millimálum

19. apríl, 2016

Mér finnst mjög mikilvægt að hafa alltaf eitthvað til að grípa í milli mála. Ef ég borða ekkert frá hádegismat til kvöldmatar þá gjörsamlega missi ég mig í kvöldmatnum og borða miklu meira en venjulega. Líkaminn minn upplifir hálfgert sjokk þegar ég borða ekkert í langan tíma og refsar hann mér með magaverkjum þegar ég loksins fæ mér að borða. Eins þegar ég verð svöng breytist ég í bókstaflega í skrímsli, svo að ég vil fyrirbyggja það eins og mögulegt er. Þannig að borða reglulega er nauðsynlegt bæði fyrir andlega og líkamlega líðan mína.

Ég á alltaf eitthvað til í frystinum til að taka út á kvöldin fyrir næsta dag og finnst mér það algjört lykilatriði svo ég fari ekki út af sporinu. Það er upplagt að nýta helgarnar í að byrgja sig upp af allskyns gúmmelaði fyrir vikunna til að eiga í frystinum. Með því að skipuleggja sig smá fram í tímann má koma í veg fyrir að maður freistist í unna og óholla fæðu. Það er mér mjög mikilvægt að borða alltaf holla og hreina fæðu, ég fúnkera ekki öðruvísi. Ég hugsa þetta oft þannig að ef ég myndi dæla bensíni á diesel bíl myndi bíllinn ekki virka sem skildi og allt færi í kerfi. Það er nákvæmlega sama og gerist þegar ég borða ekki hreina fæðu, allt fer í kerfi og ég fer í mikið ójafnvægi. Þannig að það má segja að holl og hrein fæða sé mitt bensín, algjörlega.

Maíspoppkex með avacado, eggi, salti og pipar

Þessi blanda er klárlega sú besta sem ég veit og ég virðist bara aldrei ætla að fá nóg af henni. Þegar ég var að ferðast um Nýja Sjáland ásamt kærasta mínum og vini okkar borðuðum við þetta á hverjum degi. Það má segja að þetta hafi verið hápunktur dagsins hjá okkur, matarlega séð. Það er vel hægt að taka þetta með sér í nesti hvert sem maður fer. Eina sem þú þarft er maíspoppkex (mér finnst það best frá himneskri hollustu), harðsoðið egg, salt og pipar.

Hnetumix

Skelltu uppáhalds hnetunum, fræjunum og berjunum þínum í krukku og hafðu með þér hvert sem þú ferð. Mitt uppáhalds mix inniheldur braselíuhnetur, möndlur, sólblómafræ, mórber, kókosflögur, döðlur og gojiber. Það er upplagt að eiga þetta í vinnunni til að geta gripið í þegar hungrið læðist aftan að manni.

Hrökkbrauð með hummus

2015-12-28 15.58.44Bara það að eiga hrökkbrauð á lager bjargar strax heilmiklu í annríki dagsins. Þetta hrökkbrauð tekur enga stund að gera og er auðvelt að gera það að sínu. Það er mjög gott að borða hrökkbrauðið með hummus og gefur þetta tvennt saman mjög góða fyllingu í magann að mínu mati. Uppskrift að hrökkbrauðinu má finna hér og uppskrift að hummusinum hér.

Lífrænt epli með grófu hnetusmjöri

Ég sker lífrænt epli í báta og set smá hnetusmjör í miðjuna á hvern bát. Þetta er algjört sælgæti og frekar hitaeiningaríkt millimál svo það er hálfgert spari hjá mér. Það er líka mjög gott að setja stundum möndlusmjör til að hvíla sig á hnetusmjörinu.

Glútenlausar brauðbollur

IMG_6321Þessar brauðbollur finnst mér voða gott að eiga lager af í frystinum. Ég tek þá eina út úr frystinum á kvöldin ef ég ætla að borða hana næsta dag.  Þessar brauðbollur er mjög einfalt að gera og tekur enga stund að græja þær. Brauðbollurnar eru alveg tilvaldar í nestisboxið og eru hið fullkomna millimál. Uppáhaldsáleggið mitt á brauðbollurnar er avacado með smá grófu salti og pipar yfir.

Harðfiskur

Harðfiskur er ótrúlega gott og próteinríkt millimál. Mér finnst harðfiskurinn frá gullfiski bestur, ég kaupi alltaf þorsk því ég þoli hann best. Það er sniðugt að narta í hann á kvöldin ef manni langar í eitthvað.

Söl

Söl er gríðarlega gott nasl milli mála eða yfir sjónvarpinu á kvöldin. Ekki skemmir fyrir að söl er gríðarlega holl og stútfull af næringarefnum. Söl er t.d. mjög góð uppspretta steinefna og er talin vera góð fyrir beinmerginn okkar. Mér finnst sölin frá hraunsós virkilega góð en hún fæst t.d. í Heilsuhúsinu.

Hraðferðarbitar

2016-02-27 16.10.42Þessa er mjög gott að eiga í töskunni þegar maður veit að maður á annasaman dag fyrir höndum. Þó að hraðferðarbitarnir séu hollari en hinar hefðbundnu orkukökur sem gjarnan eru við kassan í matvörubúðum þýðir það alls ekki að þeir séu hollir. Þetta er alls ekki eitthvað sem maður á að borða oft á dag, alla daga vikunnar. Þetta er samt klárlega miklu skárri kostur en margt annað sem er í boði og myndi ég mæla með því að eiga þá í frystinum og taka einn út í einu svo þú missir þig ekki alveg því þeir eru æðislega góðir. Þeir henta t.d. mjög vel sem nesti í skólann eða vinnuna. Uppskrift að hraðferðarbitunum er hér.

Fleiri hugmyndir og uppskriftir að millimálum má finna hér og hér.

Vona að þetta hafi komið þér að gagni.

Ást og kærleikur,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply