Njóttu Góðgætis

Stökkar súkkulaðihafrakökur

13. desember, 2015

Hér er ég með uppskrift af súkkulaðihafrakökum sem er ótrúlega góðar þó ég segi sjálf frá. Þessar smákökur eru stökkar, bragðgóðar og fljótlegar í undirbúningi. Þær eru lausar við glúten, mjólkurvörur og unninn sykur. Ég elska að geta búið til smákökur sem ég má borða áhyggjulaust og ég tala nú ekki um þegar þær eru góðar í þokkabót.

Súkkulaðihafrakökur                                                                  30. stk

 • 100g kókosolía (ekki bræða hana)
 • 1 dl kókospálmasykur
 • 2 egg við stofuhita
 • 3 dl glútenlaust haframjöl
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1,5 dl möndlumjöl
 • 1/6 tsk múskat
 • 1/6 tsk negull
 • 1/2 tsk kanill
 • 1 tsk vanilla
 • 3/4 tsk matarsódi
 • Hnífsoddur gróft salt
 • 100g súkkulaði (ég notaði þetta)
 1. Kveiktu á ofninum, stilltu hann á 180 °C og á blástur.
 2. Byrjaðu á því að setja kókosolíuna og kókospálmasykurinn í hrærivél og þeyttu þangað til það er vel blandað saman.
 3. Bættu síðan eggjunum saman við og passaðu að þau séu við stofuhita.
 4. Á meðan að blautefnin þeytast vel saman í hrærivélinni skalt þú setja þurrefnin saman í aðra skál.
 5. Skerðu súkkulaðið niður í litla teninga.
 6. Bættu blautefnunum og súkkulaðinu varlega saman við þurrefnin með sleif.
 7. Settu deigið á bökunarplötu með tveimur teskeiðum, pressaðu svo ofan á með gaffli.
 8. Bakaðu í 9-12 mín og leyfðu þeim síðan að kólna og harðna áður en þú gæðir þér á þeim.

Ef þú ert vegan er hægt að nota chia- eða hörfræ egg í staðin fyrir venjuleg egg. Í staðin fyrir tvö egg blandar þú saman 2 msk af möluðum chia- eða hörfræum við 6 msk af vatni. Láttu standa í 15 mín áður en þú blandar saman við blautefnin.

Þá er ekki eftir neinu öðru að bíða en að njóta.

Eigðu góðan dag <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply