Njóttu Góðgætis

Sörur í hollari búning

17. desember, 2015

Ég hef alla tíð alist upp við það að móðir mín baki sörur um jólahátíðina sem ég hef gjarnan stolist í. Ég er gríðarlega matsár og þá sérstaklega yfir sörunum. Ég man þegar ég var yngri hvað ég var alltaf hrædd um að einn af móðurbræðrum mínum myndi klára frá okkur sörurnar þegar hann kom í heimsókn. Hann gerði líka í því að heimta sörur þegar hann kom í heimsókn til að stríða litla matargatinu. Eftir að ég fékk fæðuóþolið hefur verið gríðarlega erfitt að standast sörurnar hjá mömmu. Það hefur alltaf endað þannig að ég hef stolist í þær með ömurlegum afleiðingum þar sem ég er með mikið fæðuóþol. Ég tók málin í mínar hendur og hef búið til uppskrift sem fer ekki illa í mig.

Marengsbotn

 • 4 eggjahvítur/ (ca 150 ml) við stofuhita
 • 90 g kókospálmasykur
 • 200 g hakkaðar möndlur
 1. Stífþeyttu eggjahvíturnar og kókospálmasykurinn. Ég þeytti þetta alveg í 15 mín-20 mín.
 2. Bættu möndlunum varlega út í með sleif.
 3. Settu marengsblönduna á bökunarplötu með teskeiðum. Það er smekksatriði hvað fólk vill hafa sörurnar stórar. Mér finnst smekklegt að hafa þær smáar og notaði ég ca eina teskeið af deigi í hverja söru, deigið rennur ekki mikið út í ofninum.
 4. Bakaðu í 40 mín á blæstri við 150°C. Ekki láta þér bregða þegar botninn verður brúnn, hann verður það vegna þess að kókospálmasykurinn er brúnn.

Kakókrem

 • 1 dós biona kókosmjólk (geymd í ísskáp í 24 klst.)
 • 100g kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • 1 dl kókosolía, bráðin
 • 50 ml hunang
 • 2 msk kakósmjör, bráðið
 • 1 tsk vanilla
 • 1/2 dl kakó
 • 2 msk sterkt uppáhelt kaffi (má sleppa, smekksatriði)
 • 1/8 tsk salt
 1. Kremið krefst smá undirbúnings. Settu kókosmjólkina í ísskáp um morguninn því það er best að hún sé þar í 24 klst. Ég myndi setja 2 dósir af kókosmjólk í ísskápin til að vera örugg/ur um að önnur þeirra myndi þykkt lag ofan á vökvan. Stundum er eins og eitthvað klikki og er örlítill hluti dósarinnar sem hefur orðið þykkur. Allavega 1/3 dósarinnar á að vera þykkur. Þess vegna finnst mér mikilvægt að kaupa kókosmjólk í heilsudeild matvörubúða eða í heilsubúða, mér finnst þær betri og gæðameiri.
  Settu síðan kasjúhneturnar í bleyti um kvöldið og þá er allt klárt fyrir kremgerðina næsta dag.
 2. Settu kasjúhneturnar, hunang, bráðnu kókosolíuna og kakósmjörið saman í matvinnsluvél eða blandara.
 3. Settu kasjúmaukið í skál og bættu saman við kakói, vanillu, salti og kaffi ef þú vilt hafa kaffikeim af kreminu.
 4. Taktu biona kókosmjólkina úr ísskápnum og náðu þér í nýja skál. Nú skalt þú aðskilja harðnaða hluta kókosmjólkarinnar frá vökvanum í dósinni. Settu hörðnuðu kókosmjólkina sem flýtur efst í dósinni í skálina. Veiddu allt upp úr vökvanum. Settu vökvan úr dósinni í krukku og inn í ísskáp, þú getur notað hann síðar í þeytingagerð.
 5. Þeyttu nú kókos“rjómann“ í hrærivél eða með handþeytara þangað til það verður orðið vel kremkennd og vel blandað saman.
 6. Hrærðu nú kókosrjómanum varlega saman við kasjúblönduna.
 7. Kældu kremið úti ef það er frost, annars í frystinum ef það er pláss eða þá bara í ísskáp.
 8. Þegar að kremið hefur stífnað skalt þú smyrja því á kökurnar með hníf eða pönnukökuspaða.
 9. Frystu kökurnar (úti eða í frystinum) í ca. 1 klst. svo það verði auðvelt að súkkulaðihjúpa þær.

Processed with VSCO with f2 preset

Súkkulaðihjúpur

 • 1 dl kókosolía
 • 1 dl kakó
 • 1/2 dl hunang
 • 1/4 tsk vanilla
 • hnífsoddur gróft salt
 1. Bræddu þetta allt saman yfir vatnsbaði í potti og hrærðu vel í  á meðan. Leyfðu súkkulaðiblöndunni að kólna áður en þú setjur hana á sörurnar. Ef súkkulaðiblandan er of heit þá rennur hún auðveldlega af og þá sést í kremið.
  Fyrir óþolinmóða: Ef súkkulaðið er of heitt setti ég það örstutta stund í frysti og ef það er of kalt setti ég heitt vatn í vaskinn og lét súkkulaðiskálina í örstutta stund ofan í meðan ég hrærði í .
 2. Dýfðu sörunum ofan í súkkulaðið og láttu súkkulaðið hylja kakókremið. Mér  finnst best að dýfa en sumir setja súkkulaðið á með skeið. Frystu aftur eða kældu.
 3. Settu sörurnar í flottan dall og láttu bökunarpappír á milli laga. Geymdu þær síðan í frysti og borðaðu þær beint þaðan. Gott að leyfa þeim að standa aðeins (10 mín ca.) á borðinu áður en maður borðar þær.

Processed with VSCO with f2 preset

Þessar sörur innihalda miklu minni sykur en þær hefðbundnu og finnur maður það alls ekki á bragðinu. Þær eru mjög góðar þó ég segi sjálf frá. Ég skil þó vel ef fólk kýs að gera hefðbundnu sörurnar ef það þolir innihaldsefnin í þeim. Það eru nú einu sinni jólin. Ástæðan fyrir því að ég gerði þessa uppskrift er vegna þess að mér líður hræðilega eftir að hafa borðað mjólkurvörur, glúten og unninn sykur. Ég veit að það eru fleiri þarna úti í sömu sporum og er þessi uppskrift því sérstaklega ætluð þeim.

Njóttu vel kæri lesandi <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply