Njóttu Góðgætis

Snickersbitar

22. mars, 2016

Þessa snickersköku geri ég mjög reglulega og er hún algjört spari hjá mér. Ég á ekki heiðurinn af uppskriftinni en hún kemur af heimasíðunni himneskt.is. Ég er búin að breyta uppskriftinni aðeins til að hafa karmellulagið þykkara því ég elska karmellu útaf lífinu. Þetta er án efa uppáhaldsnammið mitt og fær það ekki að staldra við lengi í frystinum hjá mér því að allir eru sjúkir í það.

Kexbotn

 • 100g möndlur
 • 100g döðlur
 • 1 tsk vanilla
 • 1 dl gróft hnetusmjör
 • 1 msk kókosolía
 • smá salt
 1. Byrjaðu á því að blanda möndlunum og döðlunum vel saman í matvinnsluvél áður en þú bætir restinni af innihaldsefnunum saman við.
 2. Ef þú átt ekki matvinnsluvél en átt blandara myndi ég byrja á því að láta döðlurnar liggja í bleyti í allavega 30 mín. Byrjaðu svo á því að mala möndlurnar í blandaranum og taktu svo mjölið úr blandaranum og settu til hliðar. Næst myndi ég mauka döðlurnar í blandaranum og nota smá vatn eftir þörfum ef að blandarinn ræður ekki við þær. Ég myndi síðan blanda öllu saman í stórri skál með sleif ef að blandarinn ræður ekki við að blanda þessu öllu vel saman.
 3. Pressaðu blöndunni niður í bökunarpappírsklætt bökunarform eða eldfast mót. Settu formið/mótið í frysti.

Í upprunalegu uppskriftinni er salthnetum stráð á botninn undir karmelluna en mér finnst það alls ekki þurfa. Ef mig langar að hafa þetta smá “crunchy“ rista ég stundum pekanhnetur á pönnu í staðin fyrir salthneturnar sem kemur líka mjög vel út.

Karamella

 • 2,25 dl hlynsíróp eða hunang
 • 1,5 dl fljótandi kókosolía
 • 1,5 dl gróft hnetusmjör
 • 3/4 tsk gróft sjávarsalt
 • 1,5 tsk kakóduft
 1. Öllu skellt í blandara/matvinnsluvél og blandað saman á litlum hraða.
 2. Karmellunni hellt yfir botninn og kakan sett aftur inn í frysti.

Súkkulaði

 • 1/2 dl kókosolía
 • 1/2 dl kakóduft
 • 1/4 dl hunang
 • hnífsoddur salt
 1. Hrærðu þessu saman í litla skál með gaffli og helltu yfir karmelluna. Mér finnst skemmtilegt að búa til munstur með súkkulaðinu ofan á karmellunni en er alls ekki skylda.
 2. Settu kökuna aftur í frysti í ca. 2 klst.
 3. Skerðu kökuna í teninga og settu í box með bökunarpappír á milli.
 4. Bitarnir geymast í frysti og þarf ekki að taka þá út löngu áður en maður borðar þá (sem er sennilega ástæðan fyrir því að þeir klárast á ógnarhraða 😉
Njóttu í botn!

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply