Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Glútenlaus pizza sem kemur á óvart

2. nóvember, 2014

Ég gæti sennilega borðað pizzu í öll mál og er sennilega ekki ein um það. Ég fæ oft löngun í pizzu og er því gott að kunna að gera eina glútenlausa fyrir þá sem þola glúteinið illa eins og ég. Einnig er miklu skemmtilegra að gera pizzuna sjálfur og þá veit maður líka 100% hvað maður er að borða. Pizzur sem við kaupum gjranan af pizzustöðum innihalda oftast ger, unnið hveiti, sykur og mikið af aukaefnum. Það fer ekki vel í alla og er maður því oft uppþembdur eftir pizzaátið.

Ég á ekki heiðurinn að uppskriftinni af botninum. En hann er aðallega úr chiafræjum sem eru einstaklega holl eins og ég hef skrifað um áður. Chiafræin eru bragðlaus svo að við getum ráðið bragðinu algjörlega sjálf með því að krydda með því kryddi sem okkur finnst best.

Mér finnst mjög gott að gera tvær pizzur í einu, þá sker ég niður afganginn í sneiðar og frysti. Svo þegar ég er eitthverntímann í tímaþröng þá á ég eitthvað til að grípa í.

Pizzabotnarnir (2 botnar)

 • 3/4 bolli Chia fræ
 • 2 1/4 bolli Vatn
 • 9 msk Bókhveiti (eða annað glútenlaust hveiti)
 • 3 msk Kasjúhnetur
 • 6 msk Graskersfræ
 • 3 tsk Óreganó
 • 3 tsk Salt
 1. Byrjið á því að setja chia fræjin og vatnið saman í skál, hrærið aðeins. Á meðan þetta verður að geli skuluð þið saxa hneturnar og fræin.
 2. Þegar Chia- og vatnsblandan er orðin gelkennd skuluð þið blanda restinni af innihaldsefnunum út í og hrærið vel.
 3. Leyfið blöndunni að standa aðeins.
 4. Setjið bökunarpappír á tvær plötur og skiptið deiginu í tvennt. Makið deginu á plöturnar með sleif og hafið það í þeirri þykkt sem þið kjósið. Botninn lyftir sér ekki.
 5. Setjið botnana í ofninn í 30-40 mín á 175°C.
 6. Takið botnana út og setjið það álegg sem þið kjósið. Setjið aftur inn í ofn í ca 10 mín og hafið hitan við 210°C.

Deigið er akkurat fyrir tvo stóra botna (ofnskúffustærð) en ég ákvað útbúa þrjár hringlaga pizzur, tvær stórar og eina minni. Á þá fyrstu setti ég tómatsósu, tómata (bæði sólþurkaða og kirsuberja), ferskan basil, rauðlauk, sveppi, svartar ólífur og rifin mozzarella ost. Á aðra setti ég tómatsósu, rauðrófu, brokkolí, geitaost, sveppi, kasjúhnetur og mozzarella ost.

Sú þriðja varð að hvítlauksbrauði, þá gerði ég hvítlauksolíu (ólífuolía, pressaður hvítlaukur, salt, pipar) og setti mozzarella ost. Þær komu allar ótrúlega vel út og smökkuðust stórfenglega.

Ég sakna þess alls ekki neitt að hafa unnar kjötvörur á pizzunni minni eins og t.d. skinku, pepperoni, beikon og fleira. Unnar kjötvörur eru alls ekki góðar fyrir mann og er vel hægt að verða saddur án þeirra.

Stundum útbý ég kokteilsósu með pizzunni af gömlum vana, hér er uppskrift af henni:

Kokteilsósa

 • 4 msk Majónes
 • 2 msk Tómatsósa
 • 1 tsk Tamarisósa
 • 1 tsk paprika
 • 1/2 tsk sinnep
 • Salt+pipar

Ég er alls ekki að auglýsa neinar vörur í þessu bloggi mínu en ég mæli með því að þið kaupið majónesið, tómatsósuna, sinnepið og tamarisósuna frá einhverju hollustumerki. Þ.e.a.s. passa að það sé ekki sykur eða mikið af aukaefnum í vörunum þannig að þær séu sem hreinastar. En það er auðvitað langbest að búa sér allt svona til sjálfur ef maður hefur tök á því. Það er t.d. mjög auðvelt að gera sitt eigið majones og sína eigin tómatsósu.

Ég skora á þig að prufa þessu pizzu, þú verður sko ekki svikin. Hún hljómar kannski ekki mjög girnilega en hún er virkilega góð og botninn er stökkur og góður.

Njóttu í botn <3

-Anna Guðný

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply