Njóttu Góðgætis

Lakkríssmákökur

5. desember, 2017

Þessar lakkríssmákökur urðu til í framhaldinu af því að ég fann út hvernig ég gæti gert sörur án þess að nota egg og unna sætu. En þessar lakkríssmákökur koma vel í staðin fyrir þessa hefðbundnu lakkrístoppa og eru bara betri ef eitthvað er fyrir mitt leyti. Þetta áttu auðvitað að verða lakkrístoppar en þar sem að blandan er mjög viðkvæm þá þarf að fara mjög varlega þegar maður hrærir öllu saman við. Ég hef greinilega ekki farið nógu varlega þar sem að það fór svolítið loftið úr deiginu þegar ég blandaði súkkulaðinu og hnetunum saman við. EN þær eru virkilega bragðgóðar þó ég segi sjálf frá, það er nú fyrir öllu.

Er kaffikvörn málið?

Ég man ég hugsaði mig lengi um hvort ég ætti að kaupa mér kaffikvörn á sínum tíma og sé ég sko alls ekki eftir því í dag. Þetta er græja sem ég nota oft í viku. En ég nota hana t.d. mikið til að mala hörfræ/chiafræ til að geta búið mér til chia/hörfræ“egg“ og núna til að mala kókospálmasykurinn. Það þarf alls ekkert að eiga flotta og dýra kaffikvörn, ég keypti það allra ódýrasta sem ég fann sem var u.þ.b. 2-3000 kr á þeim tíma. Þannig að ef þú borðar t.d. ekki egg þá er þetta algjör skyldueign ef þú ert mikið að baka í eldhúsinu án eggja. Eða til þess að mala kókospálmasykur líkt og ég í þessari uppskrift.

Lakkríssmákökur

 • 80 ml kjúklingabaunasafi
 • 1,5 dl malaður kókospálmasykur
 • 100g ristaðar heslihnetur
 • 100g 70% súkkulaði
 • 2 msk lakkrísduft frá johan bulow
 • gróft salt
 1. Byrjaðu á því að þeyta kjúklingabaunasafann á hæstu stillingu í 15 mínútur.
 2. Á meðan getur þú undirbúið bökunarplöturnar með því að setja á þær bökunarpappírinn og kveikt á ofninum. Stilltu hann á blástur og settu hitann á 100 gráður.
 3. Malaðu síðan kókospálmasykurinn í kaffikvörn þar til hann er orðin að dufti. Kókospálmasykurinn á að vera 1,5 dl þegar að það er búið að mala hann.
 4. Þegar að þú hefur lokið við að þeyta kjúklingabaunasafann bætir þú kókospálmasykrinum varlega út í með því að setja hann út í hrærivélaskálina í nokkrum skömmtum og hefur hrærivélina á minni hraða.
 5. Síðan bætir þú lakkrísduftinu, súkkulaðinu og heslihnetunum saman við mjög varlega með sleif.
 6. Því næst setur þú deigið á bökunarplötuna með tveimur teskeiðum. Það þarf ekkert að vera svo mikið pláss á milli þar sem að botnarnir fletjast ekki mikið út.
 7. Bakaðu botnana í 90 mín – ég mæli með að stilla klukku svo þú steingleymir þessu ekki.
 8. Taktu kökurnar út, leyfðu þeim að kólna alveg og skelltu þeim í kökustamp. Þær geta orðið klístraðar með tímanum svo það er gott að setja bökunarpappír á milli laga í kökustampinn. 

Þar sem að ég kýs að sniðganga unninn sykur þá finnst mér vel þess virði að bíða í 90 mínútur eftir kökunum. En það getur verið snúið að búa til vegan marengs án þess að nota unna sætu. Ástæðan fyrir þessum langa baksturstíma er hve viðkvæmar kökurnar eru vegna þess að ég nota kókospálmasykur í hann.

Með von um að þú njótir vel,

-Anna Guðný

You Might Also Like

2 Comments

 • Reply Dagný 12. desember, 2017 at 10:19

  Hæhæ, hvar fæst lakkrísduftið?

 • Leave a Reply