Njóttu Millimála

Gómsætar orkukúlur

Ég elska að eiga til næringarrík millimál í ísskápnum til að grípa í á milli mála. En þessar kúlur eru algjört góðgæti og þarf ég að hafa mig alla við að klára þær ekki á mettíma þegar að þær eru til. En þær eru mjög saðsamar svo að það hjálpar manni heilmikið með að eiga þær í nokkra daga. Sonur minn sem að er 1,5 árs er mjög hrifin af þessum kúlum og kann sko aldeilis að njóta hvers bita fyrir sig. Í kúlurnar notaði ég hrákakó en ef að þú átt það ekki til getur þú alveg notað venjulegt kakó. Ástæðan fyrir því að ég nota hrákakó er að mér finnst það bragðbetra og svo er það minna unnið en venjulegt kakó og þ.a.l. næringarríkara. En meira um muninn á hrákakói og hefðbundnu kakói hér.

Gómsætar orkukúlur

  • 100g gróft hnetusmjör
  • 100g haframjöl
  • 250g döðlur
  • 4 msk hrákakó (fæst í Heilsuhúsinu)
  • 2 msk kókosolía
  • 1/2 tsk vanilluduft
  • 1/4 tsk gróft salt
  • 50g kókosflögur, ristaðar
  1. Byrjaðu á því dreifa úr kókosflögunum í eldfast mót og baka þær í 10 mínútur við 150 gráður á blæstri.
  2. Ef að döðlurnar eru mjög harðar er gott að setja sjóðandi vatn á þær og leyfa þeim að standa í því á meðan að kókosflögurnar ristast.
  3. Settu öll innihaldsefninn fyrir utan kókosflögurnar saman í matvinnsluvél og láttu það vinna í dágóða stund. Ef að þér finnst blandan of þurr og ómögulegt að gera kúlur úr henni getur þú bætt við smá vatni saman við.
  4. Því næst setur þú kókosflögurnar saman við deigið og rétt púlsar með matvinnsluvélinni því að þú vilt ekki að þær verði að mjöli. Mér finnst mjög gott að hafa þær frekar stórar í kúlunum til að fá smá kröns í kúlurnar.

Sniðugt er að setja kúlurnar í tvær glerkrukkur, setja aðra í ísskápinn og hina í frystirinn. En þær ættu að geymast í ca. 5-7 daga í ísskápnum.

Njóttu vel <3

-Anna Guðný

                                                Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply