Njóttu Góðgætis

Glútenlausar vöfflur

8. maí, 2016

Það er ósjaldan tilefni fyrir vöfflubakstur og ilminum sem fylgir þeim. Þessi uppskrift er hrein snilld og er ekkert maus að græja þessar gómsætu vöfflur á núll einni. Uppskriftin kemur frá blogginu Against all grain og hana má finna hér. Ég algjörlega elska þegar ég finn góðar uppskriftir sem eru bæði einfaldar og fljótlegar að gera.

Það er mjög sniðugt að gera tvöfaldan skammt í einu af þessum vöfflum og eiga þær í frystinum þegar að manni langar að gera vel við sig um helgar. Eins er mjög sniðugt að gera slatta og fara með í útilegurnar og ferðalögin í sumar.

Eftir að ég hætti að borða mjólkurvörur varð ég að finna eitthvað annað en rjóma til að setja á vöfflurnar svo að ég geri mér stundum kókosrjóma með vöfflunum sem kemur mjög vel út og merkilega á óvart. Eins finnst mér líka mjög gott að setja gróft hnetusmjör á þær og sykurlausa berjasultu.

Glútenlausar vöfflur                                                                                ca. 6 stk

 • 1 bolli kasjúhnetur
 • 3 egg
 • 1/3 bolli möndlumjólk eða t.d. kókosmjólk
 • 2 msk hunang
 • 3 msk bráðnuð kókosolía
 • 3 msk kókoshveiti
 • 1/4 tsk vanilla
 • 3/4 tsk matarsódi
 • 1/4 tsk salt
 1. Skelltu efstu 5 innihaldsefnunum saman í blandara og blandaðu vel saman. Þú gætir þurft að stoppa og skafa niður á hliðunum svo að allt blandist örugglega vel saman.
 2. Bættu hinum fjórum hráefnunum saman við og blandaðu áfram þangað til að allt er orðið blandað vel saman.
 3. Kveiktu á vöfflujárninu og settu deigið í aðra skál á meðan. Hreinsaðu vel deigið úr blandaranum með sleif svo það fari örugglega ekkert til spillis.
 4. Þegar vöfflujárnið er orðið heitt skalt þú pennsla járnið með kókosolíu, báðum megin.
 5. Settu svo ca 3/4 ausu af deigi í járnið og ekki fara langt því að vöfflurnar taka enga stund að bakast.
 6. Pennslaðu svo alltaf járnið með kókosolíu á milli, þá festast þær ekki við.

Þá er ekki eftir neinu öðru að bíða en að njóta, verði þér að góðu.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply