Njóttu Góðgætis

Bolludagsbollur

25. febrúar, 2017

Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf verið mjög spennt fyrir bolludeginum og ef ég hefði fengið að ráða hefðu vatnsdeigsbollur verið reglulega á boðstólnum. Ég var alltaf mjög hrædd um að mamma hefði ekki bakað nóg af bollum enda var ég gríðarlega matsár. Bolludagurinn er mér s.s. hjartans mál enda fæddist ég á bolludeginum. Ég þekki það af eigin raun hvað er glatað að geta ekki haldið upp á svona daga vegna þess að ég sniðgeng ákveðnar fæðutegundir. Mér finnst að allir ættu að geta notið bolludagsins og ætla ég því að deila með þér einfaldri uppskrift af vatnsdeigsbollum sem innihalda ekki glúten, mjólkurvörur né unninn sykur.

Vatnsdeigsbollur

 1. Kveiktu á ofninum, stilltu hann á 200°C og á blástur.
 2. Láttu heitt vatn renna á kókosolíukrukkuna til að flýta fyrir.
 3. Settu vatn og kókosolíu í pott og hrærðu í þangað til að þetta byrjar að bubla.
 4. Taktu pottinn af hellunni. Hrærðu rólega glútenlausu hveitiblöndunni saman við, bara lítið í einu.
 5. Láttu deigið kólna í ca. 4 mín og settu það í aðra skál.
 6. Þeyttu einu eggi saman við í hrærivél eða með handþeytara. Þeyttu mjög vel saman.
 7. Þegar að fyrra eggið er vel þeytt saman við, bættu hinu þá við og þeyttu áfram í dágóða stund. Ef að það koma kekkir,ekki hafa áhyggjur. Þeir fara þegar að þú þeytir svo að vertu þolinmóð/ur í þeytingnum.
 8. Settu deigið á plötu með matskeið og láttu vera gott bil á milli. Þá er bara að skella þessu inn í ofn.
 9. Slökktu á ofninum eftir 20 mínútur og leyfðu bollunum að vera í 5 mínútur í viðbót inni.

Karamella

 • 2 msk brædd kókosolía
 • 2 msk möndlusmjör
 • 1 msk hunang/hlynsíróp
 • 1 tsk gróft hnetusmjör
 • 1/4 tsk salt
 1. Settu öll innihaldsefnin í matvinnsluvél eða blandara.

Súkkulaðiglassúr

 • 4 msk brædd kókosolía
 • 4 msk kakó
 • 2 msk hunang/hlynsíróp
 • 3 tsk kókoskrem (má sleppa ef þú átt það ekki til)
 • örlítið salt
 1. Hrærðu öllum innihaldsefnunum vel saman.

Síðan velur þú þann mjólkurlausa rjóma sem að þér finnst bestur, það er algjört smekksatriði hvað fólki finnst best. Gott úrval er í stórmörkuðunum og síðan er hægt að gera sinn eigin úr kókosmjólk. Eins er hægt að græja vanilluís ef maður á ísvél.

Það er síðan alveg bannað að vera með samviskubit yfir bolluáti enda er þessi helgi einu sinni á ári. Verði þér að góðu og njóttu bolludagshelgarinnar í botn.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply