Njóttu Morgunsins

Mín útgáfa af hafragraut

17. nóvember, 2014

Það skiptir miklu máli að byrja daginn rétt og næra sig vel fyrir amstur dagsins. Ég byrja daginn oft á hafragraut og finnst mér hann virkilega góður í magann. Einnig finnst mér mjög gott að fá mér hafragraut fyrir ræktina ef ég hef ekki fengið mér hann um morguninn. Ég get stundum verið svolítið einhæf í mataræðinu og tek oft tímabil þar sem ég fæ mér bara hafragraut alla morgna þangað til ég fæ ógeð af honum. Svo kemur næsta tímabil þar sem ég fæ mér bara chiagraut alla morgna. Ég mæli alls ekki með því að gera þetta svona því þá fær maður svo fljótt leið á hlutunum. Best er að blanda þessu saman yfir vikuna og hafa mataræðið sem fjölbreyttast.

Það er gömul klisja að hafragrautur sé vondur matur sem maður þurfi að pína ofan í sig. Það er algjör vitleysa því maður getur leikið sér eins og maður vill með hann. Hér ætla ég að deila með ykkur uppskrift af hafragraut eins og mér finnst hann bestur. Uppskriftin er alls ekki heilög, ef þið eigið ekki allt í hana notið þið bara það sem er til.

Hinn fullkomni hafragrautur                                                                Uppskrift fyrir 1

 • 1 dl glútenlaust haframjöl (Semper-Bónus, Urtekram-Krónan/Nettó)
 • 50 ml kókosmjólk í fernu/heimagerð möndlumjólk 
 • 150 ml vatn
 • hnífsoddur salt
 • 1/2 msk gróft hnetusmjör
 • 1 tsk kanill
 • 1 msk hampfræ
 • 1 msk chia fræ
 • 1/2 lífrænt epli
 • 1 msk gojiber
 1. Settu haframjölið í pott, ásamt vatni, kanil og salti. Þetta myndi ég gera um kvöldið, áður en þú ferð að sofa.
 2. Þegar þú vaknar kveikir þú á pottinum og hrærir kókosmjólkinni saman við.
 3. Þegar suðan kemur upp lækkar þú hitann á grautnum og hrærir áfram. Ef þetta er of þykkt bætiru meira af vatni saman við.
 4. Bættu hnetusmjörinu út í og hrærðu saman við grautinn.
 5. Skerðu niður eplið og settu útí ásamt gojiberjunum.
 6. Settu fræjin út í og skelltu þessu í skál.
 7. Mér finnst best að setja svo möndlumjólk út á. Ef ég á hana ekki til hræri ég saman kókosmjólk við ískalt vatn og set útá. Mér finnst hún of feit ein og sér.

Ef þú ert í tímaþröng á morgnanna er mjög sniðugt að vera búinn að græja þetta svona á kvöldin eins og ég sting upp á. Ef það er ekki vandamálið á þínum bæ þá auðvitað geriru þetta allt samstundis um morguninn. Vertu dugleg/ur að prufa þig áfram og gera grautinn eins og þér finnst hann bestur.

RIMG0241

 

 

Verði þér að góðu <3

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply